Danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækið Lendager hefur opnað stofu á Íslandi. Stofunni verður stýrt af Arnhildi Pálmadóttur arkitekt sem einnig er meðeigandi í íslenska hluta stofunnar.
Í tilkynningu frá Lendager segir að Lendager sé þverfaglegt fyrirtæki í arkitektúr og mannvirkjagerð stofnað af Anders Lendager með þann yfirlýsta tilgang að ýta greininni í átt að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi og kveðst Arnhildur vera ánægð að vera komin í samvinnu við Lendager nú þegar mannvirkjagerð stendur á tímamótum þar sem aðferðirnar sem notast er við verða að taka breytingum til að koma til móts við hnattræna hlýnun.
„Það er eiginlega ómögulegt að halda áfram að byggja eins og við erum að gera með þeim aðferðum sem er verið að nota í dag. Við þurfum að halda okkur undir tveggja gráðu hækkun á hitastigi jarðar og það gerist ekki nema með því að breyta aðferðum,“ segir Arnhildur í samtali við mbl.is en þær aðferðir sem notast er við í dag munu að óbreyttu valda 5° hækkun á hitastigi jarðar á næstu 100 árum.
Nokkur þróunarverkefni í bígerð
Meðal verkefna Lendager má nefna Resourcerækkene í Kaupmannahöfn þar sem múrsteinsveggjum úr hinni sögufrægu Carlsberg bjórverksmiðju voru endurnýttir og þeim gefið nýtt líf sem útveggir í hinum nýju byggingum ásamt endurnýtingu á timbri og stáli. Verkefnið var tilnefnt til hinna virtu Mies van der Rohe verðlaunanna í arkitektúr 2022.
Arnhildur segir að á döfinni séu nokkur spennandi verkefni. Sem dæmi má nefna Frakkastíg 1 en þar stendur til að þróa grænar byggingar ásamt fasteignafélaginu Iðu sem hluti af verkefni Reykjavíkurborgar um grænar lóðir framtíðarinnar.
„Svo erum við að vinna mjög skemmtilegt verkefni sem er lítið gistihús, þar eru eigendurnir eru mjög drífandi og meðvituð um þá umbreytingu sem þarf að verða í mannvirkjagerð og þar ætlum að notast við afskurð og afganga af yleininguum frá Límtré vírnet og viðar afg. anga frá skógræktinni meðal annars.“
Heimild: Mbl.is