Home Fréttir Í fréttum Akureyri: Fékk „ljótasta“ hús bæjarins á 18 milljónir

Akureyri: Fékk „ljótasta“ hús bæjarins á 18 milljónir

269
0
Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Húsið Strandgata 17, sem stendur á einu fjölfarnasta horni Akureyrar, var nýlega selt á 18 milljónir. Nýr eigandi hússins segist ætla að gera þetta ljótasta hús Akureyrar að því fallegasta.

<>

Húsið sem er einbýlishús á tveimur hæðum stendur á horni Strandgötu og Glerárgötu, gegnt menningarhúsinu Hofi. Það var áður í eigu Akureyrarbæjar sem auglýsti húsið til sölu fyrir áramót. Sölunni fylgdu þó töluverðar kvaðir.

Strandgata 17 stendur á áberandi stað á Akureyri og hefur mátt muna sinn fífil fegri.

Meðal annars er nýjum eiganda skilt að rífa hluta hússins innan við ári frá kaupum og byggja það upp í stíl við upprunalegt hús sem stóð á lóðinni fyrir 1908. Gluggar skulu færðir til upprunalegs horfs og klæðning utanhúss skal vera liggjandi timburpanell.

Undir forskalningunni leynist gamla klæðningin og verður húsið að sögn Helga málað í þeim lit sem kemur í ljós þegar búið er að skafa utan af því.

Hæsta tilboði tekið

Alls bárust þrjú tilboð í eignina. Hæsta tilboði var tekið upp á 18 milljónir en það átti Helgi Ólafsson. Helgi er enginn nýgræðingur þegar kemur að uppgerð gamalla húsa. Hann hefur t.d. unnið mikið fyrir Minjavernd og komið að uppgerð Fríkirkjunnar í Reykjavík sem og uppgerð annarra eldri húsa í miðbæ Reykjavíkur.

„Þetta er lítið og krúttlegt hús sem gaman verður að færa í upprunalega mynd,“ segir Helgi sem er búsettur í Reykjavík en rekur Torg Guesthouse á Akureyri. Aðspurður út í notkunina á húsinu þá segist hann fyrst og fremst ætla að gera húsið upp fyrir sig og sína fjölskyldu, en útilokar ekki að það verði einnig leigt út. Framkvæmdir munu að hans sögn hefjast fljótlega. Fyrsta verkefnið verður að rífa viðbyggingu til vesturs frá 1908, til að rýma fyrir gönguleið meðfram Glerárgötu.

Heimild: Akureyri.net