Home Fréttir Í fréttum Viðhaldsskuld á Vestfjarðarvegi veldur hættu

Viðhaldsskuld á Vestfjarðarvegi veldur hættu

49
0
Ökumaður komst naumlega hjá bílveltu við Vestfjarðarveg. Mynd – Aðsend

Holur í vegum skapa hættu fyrir ökumenn á Vesturlandi og Vestfjörðum. Fjárveitingar duga aðeins fyrir grunnviðhaldi en þörf er á endurbyggingu. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi segir vandamálið stigmagnast.

<>

Gamlir vegir á Vesturlandi og Vestfjörðum eru margir illa á sig komnir. Mikið er um holur í löngum vegarköflum og skortur er á viðhaldi. Vegagerðin nær ekki að fylla í holur jafn hratt og þær myndast og fjárskortur hindrar endurbyggingar. Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi segir mikilvægt að takast á við vandann áður en illa fer.

Ökumaður forðaðist naumlega bílveltu á Vestfjarðarvegi við Erpsstaði á sunnudag. Í ábendingu til fréttastofu segist hann hafa misst stjórn á bíl sínum á vegarkafla á milli Búðardals og Borgarfjarðar þar sem mikið var af holum í veginum.

Þrátt fyrir ástand vegarins er hámarkshraðinn 90 kílómetrar á klukkustund. Hann segist hafa misst stjórn á bílnum sem rann á hliðinni á fullum hraða og skall svo aftur niður á dekkin. Ferðafélagi hans hafi líka misst stjórn á sínum bíl á sama vegarkafla en fljótlega náð aftur stjórn.

Jón Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir í samtali við fréttastofu að vegurinn væri varasamur. Hann segir að lögreglan á Vesturlandi sendi reglulega tilkynningar á Vegagerðina þegar skemmdir á vegum valda óhöppum en að ekki væri óvenju mikið um slys á þessum tiltekna vegarkafla.

Eldri vegir margir erfiðir og hættulegir
Umræddur vegarkafli er dæmi um stærra vandamál við viðhald vega í landshlutanum. Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi, segir að mikið sé um að eldri vegir á Vesturlandi séu erfiðir yfirferðar og jafnvel hættulegir. Vegir við Miðdali, Reykhólasveit og á milli Patreksfjarðar og Bíldudals séu sérstaklega slæmir. Hann segist sjálfur ekki fengið ábendingar um slys á vegarkaflanum við Erpsstaði en að hann sé varhugaverður. Hann segir að ástandið sé svipað víða á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi.

Yfirstjórn Vegagerðarinnar hafi bent Samgönguráði á vandamálið og barist fyrir auknu fjármagni í viðhald. Fyrr í mánuðinum sagði Pálmi við fréttastofu RÚV að Vegagerðin hefði áhyggjur af því að missa vegakafla úr höndunum. Þeir séu komnir langt umfram eitthvað sem heiti viðhald. Fjórfalda þyrfti fjárveitingar til að ljúka nauðsynlegum verkefnum.

Fjárskortur rót vandans
Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Búðardal, segir að umræddur vegur sé ekki í staðlaðri breidd. Breikkun vegarins sé á döfinni en samþykki fyrir fjármögnun liggi ekki fyrir. Hann segir að Vegagerðin standi aðallega í holufyllingum á veginum en hafi ekki undan að fylla í holur um leið og þær myndast.

Pálmi segir að fjárskortur sé rót vandans og fjárveitingar til Vegagerðarinnar dugi aðeins fyrir grunnviðhaldi. Gamlir vegir þoli ekki vaxandi umferðarþunga og séu farnir að gefa sig. Hann segir að margra ára viðhaldsskuld sé til staðar og kominn sé tími á enduruppbyggingu. Vandamálið stigmagnist og nauðsynlegt sé að takast á við það áður en illa fer.

Heimild: Ruv.is