Home Fréttir Í fréttum Miklar framkvæmdir á Sjónarhóli á Bifröst

Miklar framkvæmdir á Sjónarhóli á Bifröst

269
0
Verið er að klæða húsið með brenndum viði, Shou Sugi Ban. Ljósm. sþ.

Sjónarhóll er fjölbýlishús á Bifröst sem byggt var árið 2007 vestan við gömlu skólahúsin, næst þjóðveginum. Húsnæðið hefur oft borið á góma, ekki síst eftir að ýmsir gallar fóru að koma í ljós á því skömmu eftir byggingu.

<>

Gallarnir helgast m.a. af því að ekki var lokið við smíðina á sínum tíma. Húsið stóð autt í nokkur ár og var mjög takmörkuð nýting á því.

Eftir að nýir eigendur tóku við húsinu hófust þeir handa við að gera framtíðaráform fyrir það og ákváðu meðal annars að klæða húsið að utan.

Hafa þeir síðastliðin ár unnið að endurbótum við það bæði að innan sem utan. Einn núverandi húseigenda segir í samtali við blaðamann að verkefnið sé stórt í sniðum en er þess fullviss að útkoman verði einkar glæsileg.

,,Það er verið að taka allt í gegn. Þetta hús var mikið gallað og þess vegna umdeilt. Það er búið að hreinsa alveg út úr mörgum íbúðunum og verið er að klæða húsið með einkar áhugaverðu efni.

Um er að ræða brenndan við, Shou Sugi Ban, sem er unninn eftir aldargamalli japanskri hefð og fellur vel inn í umhverfið.

Þetta er allt unnið í samstarfi við fagaðila hjá PK Arkitektum, þá Pálmar Kristinsson og Birgir Örn Jónsson, ásamt dr. Ríkharði Kristjánssyni verkfræðingi frá RK Design.

H-Val er verktaki í framkvæmdunum en kappkostað er að vel er staðið að framkvæmdum og vandað til verka,“ segir húseigandinn í samtali við Skessuhorn. Hann segist þó ekki vilja upplýsa strax um framtíðaráform fyrir húsið en það muni koma í ljós síðar.

Heimild: Skessuhorn.is