Home Fréttir Í fréttum Stefnt er að nýrri veglínu sunnan við Borgarnes

Stefnt er að nýrri veglínu sunnan við Borgarnes

182
0

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 9. febrúar síðastliðinn var samþykkt samhljóða að setja í auglýsingu breytingu á aðalskipulagi sem snertir lega þjóðvegar 1 sunnan við og framhjá byggðinni í Borgarnesi. Þar með heldur áfram ferli sem stefnt er að ljúki síðsumars með því að fullmótuð tillaga verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

<>

Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir nýjum þjóðvegi úti í firðinum. Nú er sú breyting gerð að opnað er fyrir þann möguleika að vegurinn verði færður enn utar í fjörðinn og fjær byggð og komi í land austar er núverandi gildandi aðalskipuleg gerir ráð fyrir.

Áfram er því stefnt að því að meginþorri umferðar um þjóðveginn verði leiddur framhjá byggðinni í stað núverandi veglínu í gegnum Borgarnes; um Borgarbraut, Borgarvík og áleiðis upp að hringtorginu neðan við Sólbakka.

Markmið breytingar á legu þjóðvegar utanvert við Borgarnes er m.a. að skapa rými fyrir allt að 50 íbúða stækkun við núverandi deiliskipulagt svæði, en aðallega þó að færa þjóðveginn fjær byggðinni til að skapa betri hljóðvist og loftgæði. Skipulags- og byggingarnefnd hafði áður lagt til við sveitarstjórn að samþykkja framlagða lýsingu til auglýsingar fyrir breytingu á legu vegarins.

Í aðalskipulagi er horft á tvo megin valkosti, annars vegar leið 5 einvörðungu, samanber meðfylgjandi teikningu, og hins vegar blöndu af leiðum 3 og 5. Við afgreiðslu sveitarstjórnar lagði Sigurður Guðmundsson oddviti Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn fram bókun fyrir hönd fulltrúa flokksins.

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar leggja mikla áherslu á að vandað verði til þeirrar vinnu sem framundan er við val á legu þjóðvegarins í gegnum Borgarnes. Mikilvægt er að allar mögulegar leiðir í gegnum Borgarnes, sem koma fram í lýsingunni, verði vandlega skoðaðar út frá hagsmunum íbúa, þjónustuaðila, vegfarenda og náttúru.“

Ekki einhugur um málið

Framvinda breytinga á aðalskipulagi er samkvæmt lýsingu í tillögunni þannig að nú í mars og apríl er stefnt að vinnu við tillögu að aðalskipulagsbreytingu í samstarfi við skipulags- og byggingarnefnd og aðra hagsmunaaðila.

Jafnframt er tekið fram að fram fari kynning og samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Eins og fram hefur komið í Skessuhorni eru íbúar ekki einhuga um væntanlega færslu þjóðvegarins út í fjörðinn. Meðal annars má benda á grein Heiðar Harnar Hjartardóttur á Bjargi sem birt var nýverið í Skessuhorni.

Einkum beinast efasemdarraddir hennar og fleiri að því að núverandi strandlengja skaðist með tilheyrandi áhrifum á dýralíf og gæði lands til útivistar. Í bréfi sem Guðrún Jónsdóttir og Heiður Hörn rituðu sveitarstjórn, og lagt var fram á fyrrgreindum fundi sveitarstjórnar, er komið á framfæri athugsemdum við væntanlega breytingu á aðalskipulagi. Bréfið kalla þær ákall til sveitarstjórnar um nýja hugsun.

Í bréfi þeirra segir m.a: „Nú þarf að staldra við og móta framtíðarsýn á grundvelli nýrra viðhorfa um aðgengi íbúa að ósnortinni náttúru sem fyrirfinnst þó enn á strandlengjunni út frá Borgarfjarðarbrú þar sem kyrrðin ríkir. Í dag er slíkt aðgengi dýrmætur hluti af búsetugæðum sem íbúar njóta í útivist og náttúruskoðun, ungir jafnt sem aldnir.“ Og þá segir einnig:

„Við förum þessi á leit við sveitarstjórn að áratugagamlar hugmyndir um að setja veg út í náttúrulegt umhverfi Borgarfjarðar verði lagðar til hliðar í anda samþykktar sveitarstjórnar frá árinu 2018.“

Sent til Skipulagsstofnunar í ágúst

Í tímalínu sem birt er í tillögu að breyttu aðalskipulagi kemur fram að gert er ráð fyrir að þeir íbúar sem eru mótfallnir breytingum geti komið athugasemdum á framfæri. Í maí í vor á aðalskipulagsskipulagsbreyting að verða fullmótuð og tillagan þá tekin fyrir á fundi skipulags- og bygginganefndar að nýju og á fundi sveitarstjórnar þar sem hún verður afgreidd í lögbundið auglýsingar- og kynningarferli sem áætlað að standi yfir í júní og júlí.

Í framhaldi af því verður tillagan tekin enn á ný fyrir á fundi skipulags- og bygginganefndar ásamt mögulegum athugasemdum og umsögnum sem borist hafa. Sveitarstjórn afgreiðir þær þá frá sér og loks er stefnt að því að í ágúst 2023 verði tillagan send Skipulagsstofnun sem hefur allt að þrjár vikur til að afgreiða málið.

Heimild: Skessuhorn.is