Home Fréttir Í fréttum Mýrarbraut 13 seld á 46,5 milljónir króna

Mýrarbraut 13 seld á 46,5 milljónir króna

98
0
Mýrarbraut 13. Ljósmynd/fannberg.is

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að taka hæsta tilboði í fasteignina Mýrarbraut 13, að upphæð 46,5 milljónir króna. Minnihlutinn í M-listanum gagnrýndi vinnubrögðin við söluna.

<>

Sveitarstjórn hafði óskað eftir tilboðum í fasteignina og rann tilboðsfresturinn út mánudaginn 30. mars kl. 12. Þar sem mun hærri tilboð bárust í fasteignina eftir kl. 12 samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum þann 1. apríl að miða söluna ekki við ákveðna tímasetningu, heldur að taka hæsta tilboði sem í eignina barst.

Það átti Ingvar Jóhannesson, að upphæð 46,5 milljónir króna, og samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að ganga frá sölunni.

Í kjölfarið fordæmdu fulltrúar M-listans þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við söluna þar sem sveitarstjóri hefði tekið ákvörðun fyrir hádegi þann 30. mars um að framlengja tilboðsfrestinn um óákveðinn tíma án samráðs við sveitarstjórnina.

„M-listinn fordæmir þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu máli og krefst þess að B- listinn og sveitarstjóri vinni af heilindum eftir lögum og þeim leikreglum sem við setjum okkur til að gæta réttlætis og siðgæðis í vinnu okkar gagnvart íbúum samfélagsins,“ segir í bókun M-listans.

Þessu vísuðu fulltrúar B-listans á bug og sögðu að hagsmuna sveitarfélagsins hafi verið gætt í hvívetna í þessu máli og aðdróttunum um ófagleg vinnubrögð sveitarstjóra var vísað á bug.

„Sveitarstjórn hefur eftir þetta ferli val um að breyta fyrri ákvörðun og taka hæsta tilboði sem í eignina barst […] eða hafna því og breyta ekki fyrri samþykkt sem þá þýðir verðlækkun eignarinnar um tvær milljónir króna,“ segir í bókun B-listans.

Heimild: Sunnlenska.is