Home Fréttir Í fréttum Borgin fær 68 þúsund krónur á fer­metrann á Sund­laugar­túni

Borgin fær 68 þúsund krónur á fer­metrann á Sund­laugar­túni

81
0
Borgin hyggst selja 236 fermetra úr lóð Vesturbæjarlaugar við Hofsvallagötu 54. Fréttablaðið

Kaupverð lóða á Sundlaugartúni er að meðaltali um 68 þúsund krónur á hvern fermetra en borgin hyggst selja eigendum Einimels 18, 24 og 26 um 236 fermetra úr lóð Vesturbæjarlaugar.

<>

Gert er ráð fyrir að borgin fái um sextán milljónir króna vegna viðskiptanna en þau hafa verið afar umdeild. Samkvæmt greinargerð borgarráðs frá 16. janúar síðastliðnum hafa eigendur húsanna þriggja samþykkt samkomulagið. Borgarráð samþykkti tillöguna í gær og bíður hún nú endanlegs samþykkis hjá borgarstjórn.

Almenningsrýmið minnkar
Deilur hafa staðið yfir í mörg ár vegna Sundlaugartúns, sem stendur fyrir aftan Vesturbæjarlaug. Borgarstjórn sætti harðri gagnrýni í fyrra vegna ábendinga um að lóðareigendur einbýlishúsa að Einimel 22, 24 og 26 hefðu teygt lóðir sínar í leyfisleysi út á túnið og sett upp girðingar. Voru þá uppi ásakanir um að borgin hefði í reynd gefið þessum lóðareigendum stóra landeign án endurgjalds.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti nýverið breytta deiliskipulagstillögu á túninu. Tillagan fól í sér að heimila fyrrgreindum lóðarhöfum að stækka lóðir sínar um allt að 3,1 metra og almenningsrýmið minnkar um því sem nemur.

Borgin plötuð
Teitur Atlason, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingar, sagði af sér í mars í fyrra vegna málsins. Í kjölfar þess að tillaga að breytingu deiliskipulags á svæðinu var samþykkt sagði Teitur borgina hafa verið plataða að samningaborðinu og að þetta væri niðurstaðan.

Samkvæmt deiliskipulaginu munu lóðir húsanna við Einimel 18,24 og 26 stækka. Lóðin við Einimel 18 fer þannig úr 640 fermetrum í 687. Lóðin við Einimel 24 fer úr 690 fermetrum í 769 fermetra og lóðin við Einimel 26 úr 689 fermetrum í 799 fermetra.

Skiptar skoðanir
Málið var tekið upp á fundi borgarráðs í gær þar sem tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa meirihlutans gegn þremur atkvæðum fulltrúa minnihlutans.

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins lagði fram bókun vegna málsins á fundi borgarráðs í gær. „ Hér er ekki verið að stækka borgarrýmið eins og haldið er fram í málflutningi borgarinnar. Verið er að selja húseigendum hluta af borgarrými.“ Hann sagði jafnframt að með þessu væri verið að setja slæmt fordæmi sem sendi þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún láti undan.

„Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa.“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sagði í sinni bókun að flokknum þætti borgin nota sérkennilega röksæmdarfærslu í málinu um að með breytingunni stækkaði túnið en hið rétta væri að borgin ætti þetta land og hefði alltaf átt.

„Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.“

Heimild: Frettabladid.is