Home Fréttir Í fréttum Íbúar hafa barist í þrjú ár við verktaka vegna galla

Íbúar hafa barist í þrjú ár við verktaka vegna galla

402
0
Ingvi Árnason, íbúi í húsinu, segir að lekinn frá stofugluggunum í íbúð hans sé mikill. RÚV – RÚV/Ingvi Árnason

VerÍbúar í nýju fjölbýlishúsi í Borgarnesi hafa frá því þau fluttu inn fyrir þremur árum, reynt árangurslaust að fá verktakann, sem þau keyptu eignir sínar af, til þess að lagfæra alvarlega galla í byggingunni.

<>

Gluggar eru hriplekir og þak sömuleiðis, en að sögn Guðmundar Eyþórssonar, formanns húsfélagsins, vísar verktakinn ábyrgðinni á Húsasmiðjuna, sem seldi honum gluggana, en Húsasmiðjan vísar á framleiðanda glugganna í Danmörku. „Þannig að við erum bara endi á einhverri keðju og lendum illa í því,“ segir Guðmundur.

Íbúarnir hafa fengið í hendur skýrslu frá dómskvöddum matsmanni þar sem fram kemur að gluggarnir séu ónýtir. Guðmundur segir það þó ekki hafa dugað til því enn deila verktaki, seljandi og framleiðandi um ábyrgðina. Hann segir að einnig sé nú í skoðun hvort frágangi við glugganna sé einnig ábótavant. Og á meðan leka gluggarnir áfram og halda áfram að skemma út frá sér.

Ingvi Árnason, íbúi í húsinu, segir að lekinn frá stofugluggunum í íbúð hans sé svo mikill að pollur myndast á gólfi og í gluggum og stundum þurfi hann að koma fyrir tíu handklæðum í glugganum til þess að hindra að vatnið fari um alla stofu og valdi enn meiri skemmdum. Einangrun inni í veggjunum er rennblaut og bólga og raki í veggjum í kringum gluggana.

Guðmundur segir að samkvæmt skýrslu matsmanns nemi kostnaður við að skipta út gluggum á byggingunni allri um tvö hundruð milljónir og viðgerð á þaki allt að hundrað milljónir. Íbúar hafa þegar varið nokkrum milljónum í lögfræðikostnað og ekki er enn séð fyrir endann á málinu.

„Þetta er bara heilmikið mál, þetta getur ekki átt að vera svona,“ segir Guðmundur. Það sé ekki eðlilegt að þurfa að berjast í mörg ár fyrir dómi til þess að fá bætt úr göllum á fasteign, með tilheyrandi lögfræðikostnaði.

„Til að ná fram rétti þínum.“ Hann vill sjá ferlið bætt. „Þannig að við sem kaupum fasteignir séum jafn vel tryggð og þau sem kaupa lausafé. Að við getum fengið bætt galla á vöru sem er sannarlega gölluð, án þess að þurfa að standa í dýrum málarekstri,“ segir hann.

Vatnsleki í glugga í nýbyggingu í Borgarnesi.
Ingvi Árnason

Heimild: Ruv.is