Framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar, sem hófust á síðasta ári, ganga vel. Um er að ræða 2,7 km langan kafla yfir fjörðinn og um Gufudalssveit. Stór hluti verksins er smíði nýrrar brúar sem verður 260 m löng og tvíbreið.
Mun framkvæmdin stytta Vestfjarðaveginn um níu kílómetra. Verkís sinnir eftirliti og ráðgjöf vegna verksins.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki að öllu leyti sumarið 2024 en þær hófust á síðasta ári. Lengd verktímans skýrist af því að fergja þarf botn fjarðarins sem er tímafrekt ferli. Fergingunni var skipt í tvo áfanga til að loka firðinum ekki of mikið í einu, m.a. til þess að takmarka straumhraða og botnrof.
Brúin var byggð á þurru í uppfyllingunni yfir fjörðinn. Til að tryggja eðlileg vatnsskipti var skilinn eftir áll vestan megin í firðinum. Fyrir tveimur vikum hófst vinna við að grafa efni undan brúnni og aka því í álinn og er vatn farið að renna undir brúna.
Verkið er vandasamt en varlega þarf að fara við að aka efni í álinn til að raska ekki jafnvægi botnlaganna. Sigið er mælt að loknu hverju lagi sem keyrt er út og síðan beðið þangað til næsta lag er jafnað út. Um þetta var fjallað í Morgunblaðinu í síðustu viku.
Vegurinn er að mestu byggður í nýju vegsvæði en tengist Vestfjarðarvegi í annan endann og nýjum Djúpadalsvegi sem er í byggingu í hinn endann. Nýi vegurinn liggur frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum.
Heimild: Verkis.is