Home Fréttir Í fréttum Hluti starfsfólks fluttur í annað húsnæði eftir að mygla fannst í húsnæði...

Hluti starfsfólks fluttur í annað húsnæði eftir að mygla fannst í húsnæði Landsvirkjunar

64
0
Mynd:Landsvirkjun

Mygla hefur greinst í húsnæði Landsvirkjunar. Myglugróin eru sögð af misalvarlegum toga en niðurstaða er að vænta innan skamms. Þegar hefur einni hæð verið lokað og hluti starfsfólks fluttur í annað skrifstofuhúsnæði.

<>

Mygla hefur fundist á nokkrum stöðum í húsnæði Landsvirkjunar á Háaleitisbraut 68. Þegar hefur einni hæð verið lokað. Ítarlegri niðurstaða úr rannsóknum er að vænta innan skamms en talsmaður Landsvirkjunar segir að þetta hafi ekki áhrif á starfsemina.

Taka engar áhættur með heilsufar starfsfólks
Myglan uppgötvaðist á nokkrum stöðum í húsinu rétt fyrir áramót. Strax var ákveðið að ráðast í ítarlegri skoðanir. Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að næsta skref sé að finna út hvort loka þurfi svæðum, og þá hvaða svæðum.

„Það greindist fyrst í húsinu við austurhlið og eitthvað við suðurhliðina, svona við innveggina hér. En við erum búin að vera á undanförnum vikum að gera ítarlegri rannsóknir, kortleggja og taka sýni um allt hús. Við erum að fá þessar niðurstöður núna.“

Ragnhildur segir það algjört forgangsatriði hjá fyrirtækinu að bregðast hratt og rétt við.

„Við tökum enga áhættu með heilsufar fólks hérna. Við erum þegar búin að leigja skrifstofuhúsnæði úti í bæ og starfsfólk hér hefur fært sig þangað eða vinnur heima. Sumir eru hérna í húsi ennþá. Við erum bara svona að vinna þetta eftir hendinni, eftir því sem skýrist betur hver staðan er og til hvaða ráðstafana þarf að grípa.“

Sjöundu hæðinni strax lokað
Sjöundu hæð hússins var þó lokað um leið og myglan greindist.

„Af því að þar var ljóst að það væri töluvert mikið af myglu. Þannig að við tókum bara þá ákvörðun strax að loka henni alveg. Svo verður þetta bara að skýrast á næstu dögum og vikum hversu mikið þetta er og hvort það þarf að rýma húsnæðið alveg eða hvað.“

Ragnhildur segir að þetta muni ekki hafa áhrif á starfsemi Landsvirkjunar.

„Það halda allir áfram störfum, en hugsanlega ekki við Háaleitisbraut 68.“

Hún segir að þegar liggi fyrir, út frá mati og rannsóknum, að myglugróin séu misalvarlegs eðlis.

„En við erum með þetta í höndunum á þessum færustu sérfræðingum sem við höfum fundið og munum bara hlýta þeirra ráðgjöf í einu og öllu.“

Heimild: Ruv.is