Home Fréttir Í fréttum Borgarstjóri vonsvikinn enda eigi glænýtt þak ekki að leka

Borgarstjóri vonsvikinn enda eigi glænýtt þak ekki að leka

132
0
Dagur mun funda með þeim sem komu að hönnun og framkvæmd hússins og fá skýringar á lekanum. – Þór Ægisson

Borgarstjóri segir lekann í Fossvogsskóla í gær vonbrigði í ljósi þess sem á undan er gengið. Ljóst sé að eitthvað hafi farið úrskeiðis við hönnun og framkvæmd nýrrar byggingar og að kallað verði eftir skýringum.

<>

Borgarstjóri segir það blasa við að eitthvað hafi farið úrskeiðis við hönnun og framkvæmd nýrrar byggingar Fossvogsskóla enda eigi glænýtt þak ekki að leka. Hann segist vonsvikinn yfir stöðunni en ætlar að kalla eftir svörum eftir helgi.

„Okkar skilningur var sá að þessu verki væri lokið og hefði staðist öll próf. Þannig að ég hef óskað eftir því við okkar fólk að fá fram skýringar og nauðsynlegar úrbætur. Því þó þetta hafi verið mikið vatnsveður þá eiga þökin okkar að þola það,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Skjáskot af Ruv.is

Yfir tveir milljarðar í framkvæmdir
Álman sem lak í gær er glæný en það hefur kostað yfir tvo milljarða króna að taka skólann allan í gegn eftir þrálát mygluvandamál frá árinu 2019. Það voru því eðlilega vonbrigði þegar þakið byrjaði að mígleka í vatnsveðrinu í gær.

Telurðu að eitthvað hafi farið úrskeiðis við hönnun eða framkvæmd byggingarinnar?

„Það blasir við, það á ekki að leka, nýviðgert þak. Þannig að úr því þarf sannarlega að bæta og það strax,“ segir Dagur.

Hvað nákvæmlega hafi farið úrskeiðis muni koma í ljós á fundi með Eflu á mánudag, sem hafi haft eftirlitshlutverk með verkefninu. Aðspurður hvort borgin borgi brúsann segir Dagur það eiga eftir að skýrast en að tryggingar séu til staðar.

Mikið mætt á skólanum
Og það er óhætt að segja að styr hafi staðið um Fossvogsskóla, enda hefur gengið bæði seint og illa að uppræta mygluna. Færa hefur þurft skólastarf að hluta í Korpuskóla – eða allt þar til raki mældist þar líka – og í húsnæði Hjálpræðishersins. Og loks, fjórum árum síðar, gátu nemendur og starfsmenn mætt í Fossvoginn á ný.

Telurðu að það sé einhver ógæfa yfir þessum skóla?

„Nei, Fossvogsskóli er frábær skólastofnun,“ segir Dagur. „Þessar aðstæður hafa hins vegar reynt rosalega á. Við vorum aðvonast til að vera að komast út úr þessum framkvæmda- og endurbótafasa á næstu misserum og að úrbæturnar eigi að duga til. Þess vegna var þessi leki mikil vonbrigði.“

Heimild: Ruv.is