Home Fréttir Í fréttum Rjúfa veginn til að vernda brú í smíðum

Rjúfa veginn til að vernda brú í smíðum

87
0
Skeiða- og Hrunamannavegur verður rofinn við brúna yfir Stóru-Laxá til þess að vernda brú sem þar er í smíðum vegna asahláku. RÚV – Anna Lilja Þórisdóttir

Skeiða- og Hrunamannavegur verður rofinn síðdegis við brúna yfir Stóru-Laxá til þess að vernda brú sem þar er í smíðum. Þetta er gert vegna vatnavaxta sem eru í kortunum.

<>

Vegagerðin rýfur í dag í sundur Skeiða- og Hrunamannaveg við brúna yfir Stóru-Laxá til þess að vernda brú sem þar er í smíðum. Í hádeginu var unnið að því að merkja svæðið og hjáleiðir, en þær eru um Skálholtsveg, Biskupstungnabraut og Bræðratunguveg.

Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni Vegagerðarinnar á staðnum er búist við að byrjað verði að rjúfa veginn síðdegis í dag. En þetta er heilmikil framkvæmd, mikið frost er í jörðu. En það sem þessi aðgerð á að skila er að vatnavextirnir eigi greiða leið framhjá brúnni.

Vatnavextir á fleiri stöðum

Fylgst er sérstaklega vatnavöxtum með Ölfusá, Hvíta, Þjórsá og Markarfljóti sem allar eru nú ísi lagðar og aðgerðastjórn Almannavarna á Suðurlandi fundar síðdegis um stöðuna.

Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að á fundinum verði farið yfir veðurspá næstu daga; en eins og fram hefur komið eru líkur á að lægð gangi yfir landið á morgun með hlýindum og úrkomu.

Framkvæmdirnar hófust í morgun. Óttast er að vatnavextir trufli steypuvinnu á brúnni.
RÚV – Guðmundur Bergkvist

Á fundinum verða líka dregnar upp ýmsar sviðsmyndir af því sem gæti gerst ef árnar flæða yfir bakka sína, þar verður farið yfir boðleiðir ef grípa þarf til aðgerða og hverjir muni þá koma að aðgerðunum.

Þá er líka horft til þess hvernig brugðist var við í desember 2006 þegar Ölfusá flæddi yfir bakka sína og inn í miðbæinn á Selfossi. Þar hefur verið talsverð uppbygging undanfarin ár og fleiri byggingar þar nú en þá. Á fundinum verður farið yfir stöðuna og metið hvað verður gert í framhaldinu.

Hér fyrir neðan er hægt að fylgjast með vatnavöxtum í Ölfusá í gegnum vefmyndavél RÚV

Heimild: Ruv.is