Home Fréttir Í fréttum Slökkvistöð standist ekki nútímakröfur og sé farin að leka

Slökkvistöð standist ekki nútímakröfur og sé farin að leka

163
0
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir það forgangsverkefni að koma þessu í lag. Mynd/Samfylkingin

Íársskýrslu slökkviliðs Ísafjarðarbæjar er kallað eftir nýrri slökkvistöð enn eitt árið og minnst á að það hafi komið í ljós við skoðun að þakið leki. Sigurður A. Jónsson slökkviliðsstjóri segist vera hóflega bjartsýnn á að fá nýja starfsstöð en um leið sé þörf á því þar sem núverandi stöð uppfylli ekki kröfur. Fyrst þurfi að laga núverandi stöð.

<>

„Það er búið að vera kosningaloforð í langan tíma að lofa nýrri slökkvistöð. Ég bind vonir við að hún rísi einn daginn en staðreynd málsins er að það er brýn þörf á bættri aðstöðu.“

Við skoðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, komu í ljós nokkur atriði sem þarf að lagfæra, meðal annars þakið. Þá sé mikil þörf á nýrri slökkvistöð þar sem núverandi aðstaða standist engan veginn nútímakröfur hvað varðar pláss eða aðbúnað fyrir starfsfólk.

„Við höfum undanfarin ár sinnt viðhaldi en nú er kominn upp leki og það þarf að ráðast í endurbætur því við erum ekkert að fara héðan strax. Hvort það verður eftir einhver ár veit ég ekki, en það þarf að gera við þakið því þetta eykur hættuna á sveppamyndun sem myndi gera vinnustaðinn óvinnuhæfan,“ segir Sigurður.

HMS fór fram á úrbætur á ýmsum sviðum í úttekt á dögunum.

„Það vantar fleiri fermetra, vantar búningsaðstöðu fyrir konurnar. Þær þurfa að geta gengið að sínu svæði lögum samkvæmt,“ segir Sigurður en af 55 starfandi slökkviliðsmönnum á Ísafirði eru fimm konur.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir það forgangsverkefni að koma þessu í lag.

„Næsta skref er að finna aðila til að gera við þetta. Við höfum möguleikann á nýrri stöð til framtíðar en við þurfum fyrst að leysa þetta vandamál,“ segir Arna.

Heimild: Frettabladid.is