Home Fréttir Í fréttum Fjárfesting á pari við nýjan Landspítala

Fjárfesting á pari við nýjan Landspítala

297
0
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri GeoSalmo segir allar líkur á að laxeldi verði ein af burðarstoðum atvinnulífsins áður en langt um líður. Mynd/Aðsend

Fjárfesting GeoSalmo í landeldisstöð fyrirtækisins í Ölfusi getur numið allt að 90 milljörðum króna strax á næstu árum. Það er á pari við áætlaðan kostnað ríkisins vegna nýs Landspítala í Vatnsmýri.

<>

Þrjú fiskeldisfyrirtæki vinna nú að því að koma upp landeldisverksmiðjum vestan við Þorlákshöfn í sveitarfélaginu Ölfusi. Eitt þeirra er fyrirtækið GeoSalmo sem skilaði umhverfismatsskýrslu til Skipulagsstofnunar á síðasta ári. Undirbúningur fyrirtækisins vegna framkvæmda á svæðinu er þegar hafinn.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að uppbyggingin muni taka að lágmarki þrjú ár en áætlanir geri ráð fyrir að allt að 25 þúsund tonn af eldislaxi verði framleidd í verksmiðjunni.

„Við sjáum samt fyrir okkur að stækka starfsemina enn frekar í Ölfusi þegar fram í sækir,“ segir Jens.

Hann bætir við að fyrirhugaðar framkvæmdir upp á 80 til 90 milljarða séu fjármagnaðar að hluta en nú sé unnið að frekari fjármögnun þar sem stefnt er að breiðu íslensku eignarhaldi.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá á Aðalsteinn Jóhannsson stóran hlut í GeoSalmo. Aðalsteinn hefur meðal annars fjárfest í Advania og Beringer Finance.

Fyrr í þessari viku ákvað svo sveitarfélagið Vogar á Vatnsleysuströnd að ganga til viðræðna við GeoSalmo um uppbyggingu eldisstöðvar sem áætlað er að verði af svipaðri stærðargráðu og verksmiðjan í Ölfusi.

Það er því ljóst að GeoSalmo er stórhuga þegar kemur að uppbyggingu landeldis á suðvesturhorni landsins.

Jens segir enda fulla ástæðu til. Aðstæður hér á landi séu allar hinar ákjósanlegustu og vaxtarmöguleikarnir miklir í greininni.

„Eftir því sem við komumst næst er hvergi að finna jafn góðar aðstæður fyrir landeldi og á Íslandi. Frá náttúrunnar hendi.

Hér er hægt að bora eftir sjó í jörðu, sem er alls ekki sjálfgefið. Það þýðir um leið að við getum beitt tækni sem hefur þegar sannað gildi sitt og er til þess að gera einföld,“ segir Jens.

Það sé sannarlega mikilvægt en að það sem skipti jafnvel enn meira máli sé hve hagkvæmur og stöðugur raforkumarkaður sé hér á landi. Það sé veigamesta forsenda þess að hægt sé að byggja upp landeldi í stórum stíl. Og þar standi Ísland öðrum löndum framar.

„Bent hefur verið á að það sé ekki mikil orka eftir til skiptanna á Íslandi en þá er mikilvægt að muna að landeldi þarf ekki mikla orku. Það er að segja ef horft er til þess hve mikil verðmæti geta skapast.“

 

Eftir því sem við komumst næst er hvergi að finna jafn góðar aðstæður fyrir landeldi og á Íslandi.

 

Þriðja stoðin sem geri undirlendi á suðvesturhorni landsins fýsilegt sé allt það landrými sem þar sé til staðar.

En hvert stefnir greinin? Hvaða möguleikar eru fyrir hendi til framtíðar í landeldi á Íslandi?

„Þetta er mjög ung atvinnugrein á heimsvísu og fá fyrirtæki komin langt á leið. Það er að segja á þessum stóra skala sem við einblínum á.

Norðmenn eru komnir lengst. Eins og í laxeldinu almennt. Hvort sem það er á landi eða í sjó. Þar er til að mynda eitt fyrirtæki komið af stað með framleiðslu á stórum skala og gengur vel.

Þannig að við erum mjög framarlega í þessari þróun,“ segir Jens.

Varðandi hvaða þýðingu uppbygging greinarinnar geti haft fyrir þjóðarbúið segist Jens ekki í nokkrum vafa um að laxeldi geti orðið ein af burðarstoðum atvinnulífs á Íslandi áður en langt um líður.

„Greinin þarf ekki að vaxa nema upp í svona þrjú hundruð þúsund tonn til að vera orðin jafn stór og íslenski sjávarútvegurinn í heild sinni.

Það áhugaverða við eldið er svo að við höfum alla möguleika til að þróa sjálfbæra aðfangakeðju. Þar með værum við ekki bara komin með atvinnugrein sem væri að skapa tekjur á við aðrar stórar greinar heldur værum við líka með grein sem væri alíslensk og í samræmi við stefnu landsins í loftslagsmálum.“

Jens segir alveg ljóst að það sé eftir heilmiklu að slægjast í uppbyggingu landeldis á Íslandi. Þess vegna séu fjárfestar farnir að sýna greininni þennan gríðarlega áhuga.

Heimild: Frettabladid.is