Home Fréttir Í fréttum Skálholtsdómkirkju lokað vegna framkvæmda

Skálholtsdómkirkju lokað vegna framkvæmda

110
0
Skálholtsdómkirkja. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skálholtsdómkirkju verður lokað eftir helgi vegna framkvæmda innanhúss. Lokamessa verður í Skálholti sunnudaginn 8. janúar kl. 11.

<>

Kirkjan mun fá algjöra endurnýjun að innan með viðgerðum, málningu, nýjum ljósum og raflögnum, brunavarnarkerfi, nýjum ofnum og hreinsun á orgeli. Í tilkynningu frá Skálholti segir að vonast sé til að viðgerðum verði lokið í tæka tíð fyrir páska.

Kirkjan verður lokuð fyrir heimsóknir hópa og ferðafólks, og athafnir og annað helgihaldi fellur niður á meðan framkvæmdir standa yfir.

Í lokamessunni á sunnudag verður haldið uppá birtingarhátíðina sem oftast er kölluð þréttándinn, síðasti dagur jóla. Skálholtskórinn mun syngja undir stjórn Jóns Bjarnasonar, organista, og sr. Dagur Fannar Magnússon, sóknarprestur, og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, munu þjóna og prédika.

Vonast er til að sem flestir komi til messu og fái um leið fréttir af framkvæmdunum sem framundan eru. Með þessum framkvæmdum innanhúss lýkur því mikla endurbótastarfi sem staðið hefur yfir til undirbúnings fyrir 60 ára afmæli kirkjunnar en því verður fagnað á Skálholtshátíð í júlí næstkomandi.

Heimild: Sunnlenska.is