Home Fréttir Í fréttum Harpa þarf að borga skaðabætur eftir meingallað útboð á lýsingu

Harpa þarf að borga skaðabætur eftir meingallað útboð á lýsingu

174
0
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir /RUV

Harpa þarf að greiða tveimur fyrirtækjum samtals tvær milljónir í málskostnað og öðru þeirra skaðabætur þar sem útboð á lýsingu fyrir tónlistarhúsið stóðst ekki lög.

<>

Harpa auglýsti í maí útboð á hreyfiljósabúnaði fyrir sviðslýsingu í húsinu. Innifalið átti að vera allt sem þurfti til að ljúka verkefninu. Fimm tilboð bárust, þar af tvö frá sama fyrirtæki. Valnefnd lagði mat á tilboðin og að endingu varð lýsing frá Exton fyrir valinu.

I.D Electronic og Luxor kærðu útboðið. Þau sögðu matsnefnd hafa hagrætt niðurstöðu sinni til að geta gengið til samninga við Exton. Aðferðarfræðin við stigagjöf fyrir dimmingu hreyfiljóss hefði sömuleiðis verið bæði ófagleg og ónákvæm og gefið nefndinni tækifæri á að hliðra til stigagjöf að hentugleika og verið að mestu leyti byggð á huglægri afstöðu.

Formaður kærunefndar fékk dr. Ástu Logadóttur, sérfræðing í í lýsingarfræðum, til að aðstoða nefndina.

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að það hefðu verið svo verulegir annmarkar á útboðinu að óhjákvæmilegt væri að ógilda ákvörðun Hörpu um að taka tilboði Exton

Nefndin nefnir meðal annars að aðferð við stigagjöf matsnefndarinnar hafi verið óhefðbundin, hennar hafi ekki verið getið í útboðsgögnum og beiting hennar hafi ekki verið bjóðendum fyrirsjáanleg.

Nefndin segir að stigagjöfin hafi leitt til þess að munurinn á milli ljósanna hafi ekki endilega verið sá sem stigagjöfin gaf til kynna. Hún hafi ýkt gæði ljósa sem fengu góða einkunn fyrir einn þátt en gert öðrum ljósum erfitt fyrir ef þau fengu ekki góða einkunn fyrir einn þátt.

Var Hörpu gert að greiða báðum fyrirtækjum eina milljón í málskostnað. Harpa þarf jafnframt að greiða I.D Electronic skaðabætur vegna kostnaðar fyrirtækisins við að undirbúa tilboð sitt og taka þátt í útboðinu.

Heimild: Ruv.is