Home Fréttir Í fréttum Kópavogsbær þarf að borga milljón vegna útboðs á umferðarljósum

Kópavogsbær þarf að borga milljón vegna útboðs á umferðarljósum

249
0
Mynd: RÚV

Kópavogsbær hafnaði tilboði sem uppfyllti öll skilyrði útboðs á umferðarljósum en tók tilboði sem gerði það ekki.

<>

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Kópavogsbæjar um að hafna tilboði Reykjafells í útboði á umferðaljósabúnaði og taka tilboði Smith & Norland. Kópavogsbær auglýsti eftir tilboðum í útboði á umferðarljósum í mars á þessu ári. Tvö tilboð bárust, annað frá Reykjafelli en hitt frá Smith & Norland.

Framkvæmdadeild Kópavogsbæjar mat tilboðið frá Reykjafelli ógilt og því ákvað bæjarráð Kópavogsbæjar að taka tilboði Smith & Norland

Reykjafell sagði í kæru sinni að það teldi forsendur og skilyrði útboðsins hafa verið sniðin að Smith & Norland. Þá hefði tilboð Smith & Norland ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna þar sem á því hefðu verið margvíslegir fyrirvarar og frávik frá útboðslýsingu.

Kópavogsbær hafnaði þessu og sagði tilboð Reykjafells ekki hafa uppfyllt kröfur um tæknilega getu. Ekki yrði því séð að sér hefði verið óheimilt að taka næstlægsta tilboðinu sem hefði uppfyllt allar kröfur útboðsins.

Kópavogsbær þarf að borga milljón í málskostnað
Mynd: Kópavogsbær

Það væri yfirlýst markmið að öll ljós á höfuðborgarsvæðinu væru tengd miðlægu kerfi sem væri í eigu Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Þetta væri í samræmi við áherslu samgöngusáttmála um innleiðingu stafrænnar umferðarstýringar.

Smith & Norland sagði staðhæfingar Reykjafells standast illa nánari skoðun og mótmælti því að skilyrði útboðsins hefðu verið sniðin að búnaði og miðstýrðri stjórntölvu frá framleiðanda sem Smith & Norland hefði umboð fyrir. Nauðsynlegt væri að búnaðurinn sem boðinn var út gæti átt samskipti við stjórnstöð umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu. Gagnslaust væri að kaupa búnað sem ekki gæti átt samskipti við stjórnstöðina.

Kærunefndin segir að í tilboði Smith & Norland hafi verið settir ýmsir fyrirvarar varðandi þróun margvíslegs kostnaðar þar til tilboðið yrði efnt. Að mati nefndarinnar geti bjóðandi ekki áskilið sér einhliða rétt til þess að gera breytingar á samning vegna aðstæðna sem tilboðið hefði átt að taka mið af. Fyrirvarar í tilboði Smith & Norland hafi ekki verið árétting heldur frávik og slíkt væri ekki heimilt.

Kærunefndin kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að tilboð Reykjafells hafi uppfyllt kröfur útboðsins, þvert á mat framkvæmdadeildar Kópavogsbæjar. Var það því niðurstaða kærunefndarinnar að fella úr gildi ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar að taka tilboði Smith & Norland en hafna tilboði Reykjafells. Kópavogsbær þarf jafnframt að greiða Reykjafelli eina milljón í málskostnað.

Heimild: Ruv.is