Home Fréttir Í fréttum Fyrsta hverfið sem er skipulagt í kringum borgarlínu

Fyrsta hverfið sem er skipulagt í kringum borgarlínu

75
0
Keldur og Keldnaholt eru um 116 hektarar að stærð, álíka og miðborg Reykjavíkur. Eða 162 fótboltavellir. Mynd: Betri samgöngur

Ríkið hefur afhent félaginu Betri samgöngum 116 hektara landsvæði að Keldum til uppbyggingar. Andvirðið verður nýtt í framkvæmdir samgöngusáttmálans, þar á meðal borgarlínu og stokka. Framkvæmdastjóri félagsins bindur miklar vonir við hverfið.

<>

Ríkið og félagið Betri samgöngur, sem stofnað var utan um samgönguuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, hafa undirritað samkomulag um að félagið taki við um 116 hektara landsvæði við Keldur og Keldnaholt.

Þar verður blönduð byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði en en ágóði af þessari uppbyggingu nýtist félaginu Betri samgöngum við uppbyggingu samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal borgarlínu.

Stærra framlag en til stóð

Að nafninu til er kaupverðið 15 milljarðar króna, sem greitt er fyrir með hlutafé í félaginu Betri samgöngur. Félagið er í sameiginlegri eigu ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Afhending landsins er í samræmi við samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga sem var undirritaður árið 2019. Þar skuldbatt ríkið sig til að leggja félaginu til Keldnaland, að andvirði 15 milljarða, auk tveggja milljarða framlags á ári næstu fimmtán árin. Saman leggja sveitarfélögin síðan einn milljarð til á ári.

Skipulagt í kringum borgarlínu

Landsvæðið sem ríkið afhendir félaginu er nokkuð stærra en það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Auk Keldnalandsins, sem er um 85 hektarar að stærð, fylgir Keldnaholt, tæpur 31 hektari.

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, bindur miklar vonir við þetta framtíðarhverfi þar sem byggðar verða íbúðir í bland við þjónustu og aðra atvinnustarfsemi á þéttu svæði. Ráðist verður í alþjóðlega samkeppni um uppbygginguna strax í janúar og vonir standa til að deiliskipulag fyrstu uppbyggingarreita verði þróað næsta haust.

Hverfið er þróað í kringum borgarlínu – sem Davíð segir lykilatriði í því að byggja upp þétt og nútímalegt hverfi sem verði einstakt á Íslandi. Ekki verður hróflað við húsnæði rannsóknarstöðvarinnar að Keldum, en óvissa hafði verið um framtíð hennar eftir að fyrir lá að Betri samgöngur tækju við svæðinu.

„Þetta verður hverfi sem er byggt frá upphafi út frá þeirri hugsun að það séu vistvænar samgöngur,“ segir Davíð. Ferðin með borgarlínunni úr hverfinu niður á Lækjartorg taki aðeins tuttugu mínútur.

Styttist í fyrstu framkvæmdirnar

Það styttist í að borgarbúar verði varir við fyrstu framkvæmdir vegna samgöngusáttmálans. Það er Fossvogsbrú, sem tengir Kársnes í Kópavogi við miðborg Reykjavíkur. Hún verður fyrir strætó, borgarlínu, gangandi og hjólandi.

Upphaflega var áformað að hefja vinnu við landfyllingar við brúna í haust, en það tafðist þegar í ljós kom að færa þurfti sæstreng Veitna sem kom að landi við fyrirhugaðan brúarenda.

Vinnu við það lauk nú í desember og Davíð ráðgerir að hægt verði að bjóða verkið út skömmu eftir áramót. Brúin gæti þá verið risin árið 2025, ári á eftir upphaflegri áætlun.

Veggjöldin standa á sér

Sem fyrr segir á að fjármagna samgönguframkvæmdirnar að stórum hluta með veggjöldum á höfuðborgarsvæðinu, eða flýti- og umferðargjöldum eins og þau verða nefnd. Gjaldtakan á að skila um fimm til sex milljörðum króna í ríkissjóð á ári fram til ársins 2033 eða alls 60 milljörðum króna, á verðlagi ársins 2019.

Til að það gangi eftir þarf gjaldtaka að hefjast sem fyrst. Enn er þó beðið eftir að þingið afgreiði frumvarp sem heimilar gjaldtökuna. Frumvarpið var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í vetur og ráðgert að það tæki gildi í ársbyrjun 2024. Síðan var það tekið út.

Seinki gjaldtökunni verða Betri samgöngur vitanlega af nokkrum tekjum. Af þeim sökum fékk félagið 900 milljóna króna aukaframlag úr ríkissjóði við afgreiðslu fjárlaga, sem er þó mun minna en gjaldtakan á að skila. Davíð segir það ekki koma að sök enn sem komið er, meðan framkvæmdir við verkefni sáttmálans eru ekki lengra komin.

Heimild: Ruv.is