Home Fréttir Í fréttum Ógildir útboð gönguljósa en sleppir borginni við að borga bætur

Ógildir útboð gönguljósa en sleppir borginni við að borga bætur

112
0
Mynd: RÚV – Birgir Þór Harðarson

Tvö tilboð bárust í útboð Reykjavíkurborgar á endurnýjun gönguljósa. Hvorugt þeirra uppfyllti skilyrði útboðsgagna og því taldi kærunefnd útboðsmála óhjákvæmilegt að fella útboðið niður.

<>

Reykjavíkurborg auglýsti í október á síðasta ári eftir tilboðum í endurnýjun gönguljósa í höfuðborginni. Gerð voru þau skilyrði að búnaðurinn væri notaður í minnst þremur öðrum borgum og á tíu stöðum í hverri borg. Kostnaðaráætlunin hljóðaði uppá rúmar 38 milljónir. Tvö tilboð bárust, annað frá Smith & Norland en hitt frá Reykjafelli.

Borgin tók fyrrnefnda tilboðinu en Reykjafell sætti sig ekki við þá niðurstöðu og kærði ákvörðun borgarinnar til kærunefndar útboðsmála. Sagði fyrirtækið að útboðsskilmálar og túlkun borgarinnar á þeim hefði verið með þeim hætti að aðeins vörur frá Smith & Norland komu til greina.

Kærunefndin stöðvaði samningsgerð borgarinnar við Smith & Norland í maí á þessu ári og í byrjun þessa mánaðar var það niðurstaða kærunefndarinnar að ógilda útboðið.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að hvorugt tilboðið hefði fullnægt skilyrðum útboðsgagna. Það væri því óhjákvæmilegt að fella það niður og leggja fyrir borgina að auglýsa það að nýju.

Kærunefndin hafnaði því jafnframt að borgin væri bótaskyld. Reykjafell hefði ekki sýnt fram á að það hefði átt raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu þrátt fyrir að borginni hefði verið óheimilt að taka tilboði Smith & Norland.

Úrskurður kærunefndar var lagður fram á fundi innkaupa-og framkvæmdaráðs á fimmtudag. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu sögðu í bókun sinni að þeir hefðu ítrekað vakið máls á því á fundum að kröfur borginnar í útboðinu hefðu verið óskýrar. „Útboð eiga að vera til þess fallinn að tryggja borginni besta mögulega verð, efla samkeppni á markmiði og auka gagnsæi á innkaupum,“ sagði í bókuninni.

Heimild: Ruv.is