Home Fréttir Í fréttum Segir mikilvægt að afgreiða húsnæðisfrumvörp

Segir mikilvægt að afgreiða húsnæðisfrumvörp

47
0

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir rétt að áherslur stjórnarflokkanna í húsnæðismálum séu ólíkar, en ríkisstjórnin hafi samþykkt frumvörp hennar um félagslegt húsnæði og húsaleigubætur. Hún segir mikilvægt að þingið ljúki afgreiðslu þeirra sem fyrst vegna kjarasamninganna.

<>

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti frumvörpin með fyrirvara og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður sagði í fréttum RÚV í síðustu viku að áherslur stjórnarflokkanna í húsnæðismálum væru ólíkar og það ætti ekki að koma neinum á óvart að þingflokkurinn sé ekki 100% sáttur við þessi frumvörp eins og þau liggja fyrir. Þá sagði fjármálaráðherra í Kastjósi í liðinni viku að hann hefði samþykkt að frumvörpin yrðu lögð fram eins og þau líta út, þau séu útfærsla félagsmálaráðherra sem þurfi að þola efnislega meðferð í þinginu.

„Þetta eru frumvörp sem voru unnin í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá því í vor. Þau hafa verið samþykkt í ríkisstjórn, þau hafa verið samþykkt í stjórnarflokkunum og eru núna í meðferð þingsins, í velferðarnefnd. Þar hafa þau farið í umsagnarferli og að sjálfsögðu mun þingið fara yfir þær athugasemdir og taka tillit til þeirra eins og hægt er“ segir Eygló.

Eygló segir öll mál þurfa efnislega meðferð í þinginu og að áherslur stjórnarflokkanna í húsnæðismálum séu ólíkar. Hún segir að umsagnir um frumvörpin hafi almennt verið jákvæðar. Hún segir að samkvæmt frumvörpunum sé gert ráð fyrir að einn og hálfur milljarður króna fari í félagslegt leiguhúsnæði á þessu ári og árlega á næstu þremur árum og húsaleigubætur hækki um 1,1 milljarð á þessu ári. Þetta eru aðgerðir í tengslum við kjarasamninga og því mikilvægt að þingið afgreiði málin á þessu þingi.

„Það hefur verið áhersla hjá aðilum vinnumarkaðarins, já, að þessi frumvörp verði afgreidd eins hratt og vel og hægt er. Velferðarnefnd er á fullu að vinna í málunum. Mun vanda sig og sjálfsögðu taka tillit til umsagna eins og hægt er. En áherslan er að þetta sé hluti af því framlagi sem stjórnvöld koma með til þess að hægt væri að gera hér kjarasamninga til mjög langs tíma sem er einkar mikilvægt fyrir efnahagslegan stöðugleika“ segir Eygló Harðardóttir.

Heimild: Rúv.is