Home Fréttir Í fréttum Nýr leikskóli of hár og byggingarleyfið fellt úr gildi

Nýr leikskóli of hár og byggingarleyfið fellt úr gildi

416
0
Mynd: RÚV – Garðabær

Byggingarleyfi leikskóla sem verið er að byggja í Garðabæ er ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

<>

Leikskólinn er í Urriðaholti og á að vera 1.400 fermetrar. Þar verða sex deildir fyrir allt að 120 börn. Bæjarráð Garðabæjar veitti leyfi fyrir leikskólanum í febrúar og í september tók bæjarstjórinn fyrstu skóflustunguna ásamt glöðum leikskólabörnum. En nú er komið babb í bátinn.

Íbúi við Holtsveg kærði byggingarleyfi leikskólans til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Í kærunni benti hann á að leikskólabyggingin væri rúmum tveimur metrum hærri en leyfileg hámarkshæð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Auk þess væri húsið tvær hæðir að götu en ekki ein eins og lýst væri í deiliskipulagi. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á útsýni, skuggvarp og innsýn í íbúðir að Holtsvegi 14 til 18.

Garðabær mótmælti þessu og sagði þetta óverulegt frávik sem gæti aldrei skert hagsmuni nágranna hvað varðaði landnotkun, útsýni eða innsýni.

Skoðaður yrði sá möguleiki að lækka hæð á þeim hluta hússins sem væri tvær hæðir og gefa út nýtt byggingarleyfi þannig að húsið félli að öllu leyti að deiliskipulagsskilmálum. Hélt bærinn því fram hæð hússins væri ekki nema 14 sentimetrum yfir leyfilegri hæð.

Úrskurðarnefndin bendir á að hæð hússins sé samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum 8,31 metri. Skilmálar deiliskipulags verði hins vegar ekki túlkaðir öðruvísi en að hámarkshæð hússins eigi að vera 6 metrar.

Hið kærða byggingarleyfi sé því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og verði ekki komist hjá því að fella það úr gildi.

Heimild: Ruv.is