Home Fréttir Í fréttum Skúla rafvirkja stefnt fyrir dóm

Skúla rafvirkja stefnt fyrir dóm

174
0
Héraðsdómur Reykjaness

Skúla rafvirkja ehf, sem og Skúla Birgi Gunnarssyni, var stefnt fyrir Héraðsdóms Reykjaness vegna atvika sem vörðuðu bilun í varmadælu.

<>

Dómur var kveðinn upp í málinu þann 12. desember. Dómkröfur stefnanda í málinu voru þær að Skúla yrði gert að greiða honum 421.000 krónur auk dráttarvaxta frá 1. febrúar á þessu ári til greiðsludags.

Skúli krafðist sýknu í málinu undan kröfum stefnandans.

Málsatvik eru þau að Skúli tók að sér að tengja varmadælu og stjórnstöð við rafmagn í húsnæði stefnanda. Tenging dælunnar misfórst með þeim afleiðingum að hún skemmdist. Síðan segir í texta dómsiss.

„Í framhaldinu mun stefnandi hafa tekið niður varmadæluna og flutt til umboðsaðila hennar, Fríorku ehf., sem hafi í fyrstu talið dæluna ónýta. Mun stefndi, Skúli Birgir, í kjölfar þess hafa sett sig í samband við vátryggingafélag stefnda, Skúla rafvirkja ehf., Vörð tryggingar hf., sem hafi fallist á skaðabótaskyldu vegna tjónsins og hafi af þeim sökum greitt andvirði varmadælunnar, að frádreginni eigin áhættu vátryggingartaka, það er „Varmadæla skv. reikningi frá Fríorku“ líkt og greinir í
tölvubréfi vátryggingafélagsins vegna uppgjörs tjónabóta frá 5. apríl 2022 auk þess sem í bréfinu segir að um sé að ræða „fullnaðar- og lokagreiðslu vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar.“ Nam greiðsla vátryggingafélagsins 1.239.516 krónum sem innt var af hendi til tjónþola, stefnanda máls þessa.“

Bæturnar frá tryggingafélaginu voru greiddar á reikning stefnandans í málinu. Enn fremur liggur fyrir að í stað þess að kaupa nýja varmadælu hafi verið brugðið á það ráð að gera við dæluna sem skemmdist og var viðgerðri dælunni komið fyrir og hún tengd í húsi stefnanda af hálfu annars rafvirkjameistara. Síðan var sendur reikningur á Skúla rafvirkja fyrir kostnaðinum. Skúli borgaði ekki, honum var birt innheimtuviðvörun og loks var honum stefnt fyrir dóm vegna málsins.

Dómurinn leit svo á að stefnandi í málinu væri að minnsta kosti jafn vel settur og ef ný varmadæla hefði verið keypt vegna bótanna sem lagðar voru inn hjá honum og ætlaðar voru til kaupa á nýrri dælu.

„Að mati dómsins hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem þegar hefur verið bætt að fullu vegna bilunar á varmadælunni með greiðslu vátryggingabóta, enda nýtur engra gagna um ætlaðan viðgerðarkostnað á vélinni.

Þá verður jafnframt ekki fram hjá því litið að meta ber stefnanda það til gáleysis að hafa sjálfur ráðist í gangsetningu vélarinnar án aðkomu stefndu eða sérfróðs aðila og án þess að ganga fyllilega úr skugga um að tengingar hennar væru réttar,“ segir í texta dómsins.

Það var því dómsniðurstaða að maðurinn ætti engar kröfur á hendur Skúla rafvirkja sem var sýknaður í málinu og þarf stefnandinn að greiða honum 750 þúsund  krónur í málskostnað.

Dóminn má lesa hér

Heimild: Dv.is