Home Fréttir Í fréttum Umsóknir um byggingarleyfi verða rafrænar hjá Reykjavíkurborg

Umsóknir um byggingarleyfi verða rafrænar hjá Reykjavíkurborg

178
0
Í tilefni breytinganna boðar Reykjavíkurborg til kynningarfundar á rafrænum byggingarleyfisumsóknum í Norðursal Hins hússins, Rafstöðvarvegi 7-9, 110 Reykjavík, föstudaginn 9. desember kl. 12. Mynd: Arctic Images/Ragnar Th.

Umsóknir um byggingarleyfi hjá Reykjavíkurborg verða rafrænar frá og með mánudeginum 12. desember næstkomandi. Þetta er gert ekki síst að kröfu notenda. Með rafrænum byggingarleyfisumsóknum sparast tími bæði íbúa og starfsfólks. Sömuleiðis dregur úr kolefnisfótspori vegna starfseminnar út af minni útblæstri vegna bílferða og minni pappírsnotkunar.

<>

300 kg af pappír sparast á ári

Við þessi umskipti verða talsverðar breytingar á skilum gagna og meðhöndlun umsókna hjá byggingarfulltrúa. Nú verður öllum umsóknum um byggingarleyfi skilað í gegnum Mínar síður Reykjavíkurborgar og svarbréf verða rafræn. Skráningin byggir á umsóknargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Samkvæmt úttekt á umsóknarferlinu er áætlað að það sparist 300 kg af pappír á ári. Hvað ferðir varðar sparast um 18 heimsóknir á dag sem er um 270 mínútur á dag ef miðað er við 15 mínútna ferð samtals fram og til baka.

Hvað verður um þær umsóknir sem búið er að skila inn?

Starfsemi byggingarfulltrúa verður takmörkuð í desember og því gæti orðið einhver bið á afgreiðslu umsókna. Þær umsóknir sem nú þegar er búið að skila inn á pappír verða að öllum líkindum teknar fyrir í byrjun janúar og verða fullunnar á pappír. Starfsfólk Reykjavíkurborgar þakkar skilninginn og hlakkar til að taka við rafrænum umsóknum.

Síðasti afgreiðslufundur byggingarfulltrúa á árinu 2022 verður þriðjudaginn 13. desember næstkomandi. Næsti fundur eftir það verður þriðjudaginn 10. janúar á nýju ári.

Hvernig virkar skráningin?

Teikningum verður skilað rafrænt og þarf að sameina þær í eins fáar PDF skrár og mögulegt er. Rafrænar teikningar sem þarf að undirrita geta ekki verið stærri en 20 MB. Það er nauðsynlegt að vera með rafræn skilríki fyrir þessar skráningar. Nánar er hægt hægt að lesa um skráninguna og ferlið allt á vef borgarinnar.

Kynningarfundur á föstudag

Í tilefni breytinganna boðar Reykjavíkurborg til kynningarfundar á rafrænum byggingarleyfisumsóknum í Norðursal Hins hússins, Rafstöðvarvegi 7-9, 110 Reykjavík, föstudaginn 9. desember kl. 12.

Farið verður yfir nýtt umsóknarferli, skil á rafrænum gögnum og afgreiðsluferil byggingarfulltrúa. Umræður verða í lok fundar og boðið verður upp á hádegissnarl á meðan birgðir endast. Öll eru velkomin.

Heimild: Reykjavik.is