Home Fréttir Í fréttum Glugga­smið sem sagði verkið í „al­gjörum for­gangi“ gert að endur­greiða inn­borgun að...

Glugga­smið sem sagði verkið í „al­gjörum for­gangi“ gert að endur­greiða inn­borgun að fullu

190
0
Viðskiptavinur ákvað að rifta samningi þrettán mánuði eftir að tilboð fyrirtækisins var samþykkt. Þá var enn ekkert að frétta. GETTY

Fyrirtæki sem smíðar glugga hefur verið gert að endurgreiða viðskiptavini staðfestingargjald pöntunar að fullu eftir að viðskiptavinur ákvað að rifta samningi, þrettán mánuðum eftir að hann hafði samþykkt tilboð fyrirtækisins í smíði þriggja glugga og hurðar vegna lekavandamála í fasteign.

<>

Framkvæmdir voru þá ekki hafnar og ekki vitað til þess að fyrirtækið hefði hafið smíði glugganna.

Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa sem féll í byrjun mánaðar.

Í úrskurðinum er málið rakið en viðskiptavinurinn hafði óskað eftir tilboði frá fyrirtækinu vegna smíði glugganna þriggja og hurðarinnar, sem og uppsetningar. Fyrirtækið gerði tilboð í verkið í júlí 2021 upp á rétt rúma milljón að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í tilboðinu var kveðið á um að 35 prósenta staðfestingargjald skyldi greitt við samþykki þess. Viðskiptavinurinn samþykkti það og greiddi staðfestingargjaldið, eða innborgunina, inn á reikning fyrirtækisins, um 360 þúsund krónur.

„Í algjörum forgangi“

Gluggasmiðurinn og viðskiptavinurinn áttu svo í reglulegum samskiptum í gegnum tölvupóst þar sem viðskiptavinurinn ítrekaði margsinnis ósk sína um að gluggasmiðurinn myndi hefja verkið eins fljótt og kostur væri enda lægi fasteignin undir skemmdum vegna leka.

Gluggasmiðurinn mætti svo loks til viðskiptavinarins í maí síðastliðinn til að mæla fyrir gluggunum og hurðinni. Tilkynnti smiðurinn þá að smíðin myndi hafa „algjöran forgang“ hjá honum og tæki hún um þrjár til fjórar vikur.

Í gögnum kemur svo fram að ítrekaðar tafir hafi orðið á smíðinni. Viðskiptavinurinn tilkynnti svo með tölvupósti í ágúst síðastliðinn að hann sætti sig ekki við frekari drátt á því að verkið myndi hefjast, en þrettán mánuðir voru þá liðnir frá því viðskiptavinurinn hafði samþykkt tilboð smiðsins.

Var þá óskað eftir ljósmyndum af framgangi gluggasmíðinnar til að færa sönnur á að gluggarnir væru tilbúnir eða smíði hafin. Smiðurinn varð ekki við beiðninni og sendi engar myndir.

Fyrirtækið hafði í engu efnt samning

Viðskiptavinurinn óskaði þá eftir endurgreiðslu á innborguninni – beiðni sem var ítrekuð viku síðar.

Um miðjan október endurgreiddi smiðurinn hluta innborgunarinnar, 200 þúsund krónur. Viðskiptavinurinn leitaði svo til kærunefndarinnar og krafðist þess að smiðurinn myndi endurgreiða honum það sem eftir stóð, það er rúma 161 þúsund krónur.

Kærunefndin taldi ljóst að verulegur dráttur hefði orðið á viðskipunum með vísun í lög um þjónustukaup og því hafi viðskiptavininum verið heimilt að rifta samningi og óska eftir endurgreiðslu.

„Við mat á endurgreiðslukröfu sóknaraðila verður að líta til þess, með hliðsjón af framlögðum gögnum, að varnaraðili hefur í engu efnt samning aðila,“ segir í úrskurðinum.

Ber honum því að endurgreiða eftirstöðvar innborgunarinnar, 161.481 krónu, auk dráttarvaxta.

Tengd skjöl: Úrskurður

Heimild: Visir.is