Home Fréttir Í fréttum 10.01.2023 Sveitarfélagið Vogar óskar eftir tilboðum í atvinnuhúsnæði og byggingarrétt

10.01.2023 Sveitarfélagið Vogar óskar eftir tilboðum í atvinnuhúsnæði og byggingarrétt

245
0
Mynd: Vogar.is

Sveitarfélagið Vogar óskar eftir tilboðum í 1593 fermetra atvinnuhúsnæði og byggingarrétt á lóðinni Hafnargötu 101.

<>

Verkefni þess aðila sem samið verður við er að vinna deiliskipulag fyrir svæðið ásamt því að fullhanna og byggja nýjar byggingar með öllum frágangi að utan sem innan ásamt því að ganga frá fullbúinni lóð á sinn kostnað.

Á lóðinni sem er um 1 hektari að stærð er 1593 fermetra atvinnuhúsnæði sem bæjarstjórn hefur heimilað niðurrif á. Ekki er gerð krafa um að halda í núverandi hús en það telst tillögum til tekna ef hægt er nýta núverandi hús að einhverju leyti eða útlit nýrra bygginga hafi skírskotun til eldra húsnæðis og sögu svæðisins.

Á lóðinni er spennistöð og fornleifar ásamt því að gert er ráð fyrir nýju hreinsimannvirki fráveitu sveitarfélagsins innan lóðarinnar. Taka þarf tillit til þessara þátta við skipulag og hönnun svæðisins.

Svæðið umhverfis lóðina einkennist í dag af smábátahöfn, atvinnustarfsemi og íbúðabyggð. Við val á umsækjendum verður sérstaklega horft til þess að hugmyndir um hönnun, skipulag og framkvæmdir taki mið af einkennum, ásýnd og sögu svæðisins og að uppbygging styðji við jákvæða atvinnuþróun í ört stækkandi sveitarfélagi.

Mikilvægt er að nýting reitsins taki mið af nærliggjandi starfsemi og mikilvægi staðsetningar gagnvart framþróun menningar- og ferðaþjónustu. Í endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að á lóðinni verði blanda af íbúðarhúsnæði og verslunar- og þjónustustarfsemi.

Litið er á það sem kost ef verslun, þjónusta og önnur starfsemi yrði jafnvel ráðandi á reitnum. Þar sem aðalskipulagið hefur ekki öðlast gildi ennþá er möguleiki á að breyta skilgreiningu lóðarinnar komi fram góðar hugmyndir um annað fyrirkomulag lóðarinnar.

Hægt er að skoða lóðina og nærumhverfi í myndbandinu hér að neðan.

Tilboð verða metin með tilliti til verðs, hugmynda um nýtingu lóðarinnar, fjárhagslegrar getu og faglegs bolmagns til að standa undir hönnun og framkvæmd fyrirhugaðra hugmynda. Skulu upplýsingar um hvernig verði staðið að fjármögnun verkefnisins fylgja tilboði. Ekki verður greitt fyrir kostnað sem af tilboðsgerð hlýst.

Sveitarfélagið Vogar áskilur sér rétt til að velja hvaða umsókn sem er eða hafna öllum.

Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið: byggingarfulltrui@vogar.is

Eingöngu er hægt að sækja um rafrænt í gegnum íbúagátt á heimasíðu sveitarfélagsins www.vogar.is (Umsóknir – 05 Tæknisvið – Lóðarumsókn).

Umsóknarfrestur er til og með 10. janúar 2023.

Heimild: Vogar.is