Niðurstaða virðist fengin um hvernig Vestfjarðavegur verður lagður við fossinn Dynjanda en tekist var á um tvær mismunandi veglínur í gegnum friðlandið.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar valdi að fara milliveginn.
Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um fyrirhugaða vegagerð í Dynjandisvogi í Arnarfirði. Fossinn Dynjandi og umhverfi hans eru friðlýst og því er ný vegarlagning þar vandmeðfarin.
Vegagerðin hafði í umhverfismati kynnt tvær leiðir sem báðar höfðu sína galla. Önnur tillagan var að fylgja núverandi vegstæði, sem þýddi að fornminjar í Búðavík færu undir veginn við breikkun hans, auk þess sem krappar beygjur myndu haldast. Hin tillagan var að skera nýjan veg upp í fjallshlíðina ofan Búðavíkur, sem þýddi talsvert rask í hlíðinni en beinni veg.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur núna samþykkt að fara milliveginn; það er málamiðlun sem Vegagerðin hafði kynnt; að fylgja núverandi vegstæði að mestu en færa veginn örlítið ofar í brekkuna í Búðavík, hlífa fornu búðatóftunum þar í fjöruborðinu, og skera veginn upp í klettana í víkinni.
Þannig tekst að gera veginn meira aflíðandi og fækka kröppum beygjum. Gatnamótin að Dynjanda færast jafnframt örlítið norðar.
Um Dynjandisdal upp með Svíná er gert ráð fyrir að fylgja núverandi veglínu að mestu, vegurinn þó réttur af á einum kafla og ein beygja tekin þar af.
Mesta breytingin verður efst við Afréttarvatn þar sem valin er ný veglína á tveggja og hálfs kílómetra kafla þar sem vegurinn fer upp á Dynjandisheiði.
Og þeir sem standa á efstu fossbrún Dynjanda, svona munu þeir sjá til vegarins undir fjallshlíðinni fjær.
Frestur til að gera athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna er til 8. desember.
Hvenær ráðist verður í vegagerðina er hins vegar óvíst en það skýrist væntanlega með næstu samgönguáætlun á nýju ári.
Heimild: Visir.is