Hagstofan spáir því að hagvöxtur verði rúm sex prósent í ár en ekki nema eitt komma átta prósent á næsta ári. Þá er því spáð að verðbólga verði að jafnaði 8,2 prósent í ár. Þá kemur fram í Þjóðhagsspá Hagstofunnar að á fyrri helmingi ársins hafi fjárfesting í íbúðarhúsnæði dregist saman um sjö prósent.
Hins vegar hafi mikið af íbúðum verið byggðar eða séu í byggingu og því sé gert ráð fyrir viðsnúningi og að íbúðafjárfesting aukist um 5,4% seinni hluta þessa árs og aukist um tæp þrettán prósent á næsta ári.
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir ánægjulegt hversu miklum viðsnúningi Hagstofan spáir á húsnæðismarkaði.
„Og mjög jákvætt ef sá hluti spárinnar gengur eftir,“ segir Jón Bjarki.
Telurðu líklegt að þessi hluti spárinnar gangi eftir?
„Já, við erum kannski með væntingar um heldur hægari vöxt í íbúðafjárfestingunni en stefnan er klárlega sú sama. Vísbendingar eru orðnar nægilega sterkar um að þessi aukning sé í kortunum til þess að það yrði þá bitamunur en ekki fjár. Hvort að vöxturinn verði aðeins hægari en þar er gert ráð fyrir kemur náttúrulega bara í ljós í fyllingu tímans,“ segir Jón Bjarki.
Heimild: Ruv.is