Home Fréttir Í fréttum Telja veikindi íbúa á Hlíð gæti mátt rekja til myglu

Telja veikindi íbúa á Hlíð gæti mátt rekja til myglu

103
0
Mynd: RÚV
Íbúar tveggja deilda á Hjúkrunarheimili Hlíð á Akureyri sjá fram á flutning milli deilda vegna myglu sem hefur greinst í húsinu. Einhverjir heimilismenn hafa fundið fyrir „heilsufarslegum einkennum“ sem talið er að megi rekja til myglunnar.

Akureyri.net greindi fyrst frá málinu.

<>

Alvarlegar athugasemdir um ástand húsnæðis

Þar er vísað í bréf framkvæmdastjóra til starfsmanna, og hefur forstöðukona Hlíðar staðfest réttmæti þess við fréttastofu. Í bréfinu segir að verkfræðistofan Mannvit hafi gert alvarlegar athugasemdir við ástand húsnæðisins.

Deildirnar tvær sem verða rýmdar eru Víðihlíð og Furuhlíð og segir í bréfinu að þeir verði fluttir á önnur heimili, þar sem að „grunur liggur á að heilsufarsleg einkenni hjá þeim sé mögulega hægt að rekja til húsnæðisins. Ekki verða teknir inn nýjir íbúar í þau rými meðan óvissa ríkir um hvernig brugðist verður við niðurstöðum úttektar á húsnæðinu“.

Húsið, sem er um sextíu ára gamalt, er í eigu ríkisins og Akureyrarbæjar. Heilsuvernd rekur starfsemina sem þar fer fram, en það er svo í höndum heilbrigðisráðuneytis og Akureyrarbæjar að bregðast við athugasemdunum í skýrslu Mannvits. Þau fengu til þess 14 daga frest frá Heilsuvernd, sem rann út á mánudag.

Heilsuvernd segir framhaldið óljóst, en Akureyrarbær og ríkið ætli sér að „funda fljótlega um málið“ eins og það er orðað í bréfinu til starfsmanna.

Þá hafi Heilsuvernd óskað eftir því að gerð yrði nánari úttekt á loftgæðum á Hlíð og boðist til þess að greiða fyrir hana sjálf. Tvær verkfræðistofur hafi verið tilbúnar að vinna verkið, en sú beiðni hefur ekki verið samþykkt.

Forsvarsmenn Heilsuverndar, ásamt lögfræðingi, hafa óskað eftir fundi með húseigendum eins fljótt og auðið er.

Heimild: Ruv.is