Home Fréttir Í fréttum Þrjár athugasemdir ekki þess eðlis að stöðva uppbyggingu í Neskaupstað

Þrjár athugasemdir ekki þess eðlis að stöðva uppbyggingu í Neskaupstað

213
0
Mynd: Austurfrett.is

Meirihluti í umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðarbyggðar telur ekki ástæðu til að stöðva uppbyggingu íbúða að Hafnarbraut 38 – 42 þrátt fyrir þrjár framkomnar athugasemdir.

<>

Byggingarfulltrúa sveitarfélagsins var í vikunni falið að gefa út byggingaleyfi vegna byggingar tveggja hæða íbúðarhúss á ofangreindum stað í Neskaupstað þegar öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað.

Sú ákvörðun þvert á óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokks sem töldu ekki hafa verið nægilega vönduð vinnubrögð við grenndarkynningu og sú ekki samrýmst reglum Skipulagsstofnunar um slíkar kynningar. Sátt um allt slíkt væri mikilvægt gagnvart íbúum sveitarfélagsins.

Þrjár athugasemdir

Einar þrjár athugasemdir bárust frá íbúum í Neskaupstað vegna byggingaráformanna. Sú fyrsta snéri að framkvæmd grenndarkynningarinnar, í annan stað var fundið að því að fyrirhuguð hæð nýbyggingarinnar sem væri ekki í samræmi við húsin í kring og þriðja athugasemdin fann að fyrirhuguðum lit hússins; húsið yrði of svart og yfirbragð gamla íbúahverfisins eyðilagt.

Í umsögn vegna athugasemdanna sem bárust kemur fram að umhverfis- og skipulagssvið Fjarðabyggðar hafi látið öllum í té allar upplýsingar sem óskað var eftir á kynningartímanum.

Þar með töldum þeim aðila sem taldi sig ekki hafa fengið allar nauðsynlegar upplýsingar. Varðandi hæð fyrirhugaðs húss var bréfritara bent á að í grennd við byggingarreitinn séu tvær byggingar sömu hæðar eða hærri auk þess sem aðalskipulag Fjarðabyggðar geri ráð fyrir sveigjanleika við allt skipulag.

Að sama skapi sé litaval nýja hússins ekki í ósamræmi við stefnu aðalskipulags en ekki sé deiliskipulag á umræddu svæði.

Heimild: Austurfrett.is