Home Fréttir Í fréttum Þriðja hæð Kringlunnar endurbætt fyrir milljarð

Þriðja hæð Kringlunnar endurbætt fyrir milljarð

429
0
Þriðja hæð Kringlunnar gengur nú í gegnum endurnýjun lífdaga. Stjörnutorg, sem opnaði árið 1999, víkur fyrir nýju veitinga- og afþreyingarsvæði. Ljósmynd: Aðsend mynd

Þriðja hæð Kringlunnar gengur í gegnum miklar endurbætur. Hæðin eins og hún leggur sig verður helguð mat og afþreyingu.

<>

Eins og vart hefur farið fram hjá gestum sem nýlega hafa lagt leið sína í Kringluna gengur þriðja hæð verslunarmiðstöðvarinnar í gegnum miklar endurbætur.

Í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs 2021 hjá fasteignafélaginu Reitum, sem er eigandi Kringlunnar, kom fram að fjárfest yrði rúmlega einum milljarði króna í endurbæturnar á þriðju hæðinni.

Við endurbætur hæðarinnar hefur Kringlan notið ráðgjafar breska félagsins M Worldwide, sem sérhæfir sig í lífstílstengdum verkefnum, og THG Arkitekta. Arkitektinn Paolo Gianfrancesco leiðir verkefnið.

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að fyrir tveimur árum hafi verið tekin ákvörðun um að leggja alla hæðina undir afþreyingu, mat og skemmtun fyrir börn og fullorðna.

Svæðið, sem er alls um 7 þúsund fermetrar, fái lengdan opnunartíma en muni einnig sem áður þjóna gestum Kringlunnar á opnunartíma verslana.

„Þetta er þróun sem hefur verið að eiga sér stað víða erlendis í verslunarmiðstöðvum sem eru að taka breytingum til að koma til móts við breytta neysluhegðun og væntingar viðskiptavina.

Auk þess að vera eitt helsta verslunarsvæði landsins viljum við með þessu einnig vera einn vinsælasti áfangastaður landsins í mat og afþreyingu.“

Eitt af helstu markmiðum breytinganna sé að þriðja hæðin gæti verið áfangastaður sem sé óháður opnun Kringlunnar. „Svæðið verður opið lengur heldur en verslunarrými Kringlunnar og gestir veitinga- og afþreyingarsvæðisins því ekki bundnir af opnunartíma verslunarsvæðisins.

Við búum svo vel að vera með nóg af bílastæðum, ekki síst eftir að verslunarrýmið lokar seinni partinn. Lengri opnun á hæðinni gefur þeim kvöldgestum sem eru á leið í leikhús eða bíó, fjölbreyttan valkost í mat og drykk fyrir sýningar.

Opnunartími Kringlunnar helst óbreyttur og þriðja hæðin því hugsuð sem aðdráttarafl sem trekkir gesti að Kringlunni utan opnunartíma verslana.“

Gamlir „vinir“ í bland við nýja

Í nýju veitingarými á þriðju hæðinni verður að sögn Sigurjóns fjölbreytt úrval spenandi veitingastaða.

Þar verði meðal annars að finna nýja staði á borð við Yuzu, Flatey, Pastagerðina, Local, Ísey og Takkó í bland við Subway, Sbarro og Rikki Chan sem lifað hafa góðu lífi á Stjörnutorgi um árabil.

Að auki verður veitingastaður á vegum rekstraraðila Serrano sem mun opna nýjan stað undir nafni Serrano & Caliante,

Að sama skapi verði veitingastaðirnir Alibaba, Kore og Tokyo Sushi áfram á Kringlutorgi, sem mun við breytingarnar verða hluti af nýju mathallarsvæði.

Heimild: Vb.is