Home Fréttir Í fréttum Reisa fyrsta hampsteypuhúsið úr innlendum hampi

Reisa fyrsta hampsteypuhúsið úr innlendum hampi

331
0
Mynd: RÚV

Byggingariðnaður er einn mesti mengunarvaldur í heiminum og ber ábyrgð á losun allt að 40 prósentum gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu.

<>

Nokkrir frumkvöðlar telja að iðnaðarhampur geti dregið gríðarlega úr þeirri losun og stefna að því að reisa fyrsta hampsteypuhúsið úr innlendum hampi í vor.

Biobuilding, eða Lífhúsið, er tilrauna- og þróunarverkefni á vegum arkitektastofunnar Lúdika, sem er í eigu þeirra Önnu Karlsdóttur og Jans Dobrowolski. Í sumar fékk stofan styrk frá Hönnunarsjóði til að hanna 15 fermetra smáhýsi úr hampsteypu. Til stendur að reisa það í Grímsnesi í vor og kanna hvernig það stenst íslenskar aðstæður.

„Sem arkitektar sjáum við sóunina í byggingarðiðnaðinum og vitum hversu mikið kolefni hann losar,“ segir Anna. „Við vildum kanna hvernig við gætum gert þetta betur. Þannig kynntumst við hampinum og það hefur verið enginn vegur til baka.“

Talið er að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Tæplega helmingur þeirrar losunar kemur frá byggingaefnum, einkum steinsteypu.

Helstu kostir hampsteypunnar er hvað hún er umhverfisvæn. Hampurinn bindur ekki bara koltvíoxíð meðan hann vex, því hampsteypan heldur áfram að sjúga það í sig næstu áratugi. Hampsteypa andar líka og er einangrandi og brennur hvorki né myglar. Það hljómar næstum of gott til að vera satt.

„Einmitt,“ segir Jan og hlær. „Það er stóra spurningin, hvers vegna hefur það ekki verið notað í meiri mæli. Það eru dæmi í Evrópu og þetta fer vaxandi í Bandaríkjunum en hefur ekki verið reynt á Íslandi.“

Eitt helsta spursmálið er íslenska umhverfið með sitt slagveður, og frost og þíða skiptast á ótt og títt. Anna telur að það verði ekki vandamál.

„Plantan er þess eðlis að hún drekkur í sig vatn og getur losað það fljótt. Hún er nánast gerð fyrir þessar aðstæður og við vonumst til að geta sannað það með húsinu.“

Vilja sanna að hægt sé að nota innlendan hamp

Fleiri hamsteypuhús eru í bígerð á Íslandi en þetta er hins vegar það fyrsta sem verður búið til úr innlendum hampi. Önnu og Jan fannst mikilvægt að lágmarka innflutning höfðu því samband við Hampfélagið, sem tók áskoruninni fagnandi.

„Ég var mjög hörð á því að við myndum rækta hamphús á Íslandi,“ segir Þórunn Þórs Jónsdóttir, varaformaður Hampfélagsins. „Ef við ætluðum að gera tilraun þá þurfum við að sanna að við getum gert það hér og þurfum ekki að treysta á aðra. Tilgangurinn með hampinum er að geta verið sjálfbær.“

Það eru aðeins örfá ár síðan hamprækt varð lögleg á Íslandi. Sífellt fleiri bændur hafa verið að prófa sig áfram með plöntuna í smáum stíl, þar meðal Örn Karlsson á Sandhóli í Meðallandi og Hörður Davíð Björgvinsson bústjóri hans.

„Við ræktum ýmislegt, aðallega bygg og hafra og repju. Svo erum við auðvitað með grasrækt fyrir gripina okkar. En svo höfum við verið að prófa hamprækt í þrjú ár. Við vildum vita hvort þetta væri hægt á Íslandi. Við erum búin að vera með þetta í þrjú sumur og það er góður árangur.“

Eftir að plantan hefur verið skorin niður er hún ýmist færð inn í hús til þurrkunnar eða látin liggja úti og brotna niður. Eftir að hún er þurrkuð eru trefjarnar skildar frá, en þær má nota í hluti eins og textíl og reipi. Stöngullinn er hins vegar kurlaður niður.

Í framhaldinu er hampkurlinu hrært saman við kalk og vatn, efjunni sturtað í mót, þjöppuð niður og látin harðna. Þar með er eitt stykki útveggur orðin til en hann er borinn upp af grind, yfirleitt úr timbri.

Þarf fjárfestingu fyrir magnvinnslu

Afurðir sem hægt er að vinna úr hampi skipta þúsundum, matvæli, fatnaður, byggingarefni og svo má lengi telja. Þróunin er hins vegar skammt á veg komin hér á landi og til að framleiðsla nái máli þarf talsverða fjárfestingu í tækjabúnaði til að skera upp, þurrka og vinna úr hampinum.

„Annað hvort förum við í þetta á einhverjum skala eða sleppum því,“ segir Örn. „Þetta hefur ekki verið neitt nema kostnaður fyrir okkur þannig séð, við erum bara að athuga hvort þetta virki. En þá þarf að fara að ná einhverjum tekjum úr þessu og svo framvegis. Ég held að þetta gangi og ef það er hægt að setja upp vinnslur fyrir þetta þá förum við bara á fullu í þetta.“

Þórunn er bjartsýn á að tilraunahús Önnu og Jans eigi eftir að gefast vel.

„Þetta er besta steypan fyrir Ísland. Við eigum í miklum vandamálum með okkar íbúðir, eyðum mestum peningum í að laga og halda húsunum í lagi. Þannig að ég get ekki séð að það verði fyrirstaða nema einhver vilji standa vegi fyrir þessu.“

Heimild: Ruv.is