Home Fréttir Í fréttum Ásland 4 – opið fyrir umsóknir fyrir lóðir í Hafnarfirði

Ásland 4 – opið fyrir umsóknir fyrir lóðir í Hafnarfirði

540
0
Ásland 4 - hverfið í heild

Náttúruperla í suðurhlíðum Ásfjalls – Hafnarfjörður stækkar og ný hverfi verða til

Ásland 4 er nýjasta uppbyggingarsvæðið í Hafnarfirði og hefur Hafnarfjarðarbær nú opnað fyrir umsóknir um lóðir í fyrsta áfanga uppbyggingar.

<>

Umsóknir um 65 einbýlishúsalóðir og 12 raðhúsalóðir. Ásland 4 er íbúðahverfi í framhaldi af hverfum beggja vegna, þ.e. Ásland 3 og nýjum íbúðahverfum í Skarðshlíð og Hamranesi.

Svæðið markast af Ásfjalli með Mógrafarhæð sem stingst inn í svæðið frá norðri, íbúðarbyggð Áslands 3 í norðaustri, Ásvallabraut í austri og suðri og nýrri íbúðabyggð í Skarðshlíð og Hamranesi í vestri.

Sækja um lóð

Áhersla á lágreist sérbýli og lítil fjölbýlishús

Við skipulag og hönnun á hverfi var rík áhersla lögð á heildræna sýn, vistvænt skipulag, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði. Byggðin mun samanstanda af lágreistum sérbýlisíbúðum; einbýlum, par- og raðhúsum auk lítilla fjölbýlishúsa með sérinngöngum og óverulegri sameign.

Áhersla er lögð á að hverfið tengist innbyrðis með grænum svæðum eða trjábeltum. Í þessum beltum verða göngustígar og fjöldi af gróðursettum trjám sem mynda skjól og náttúrutengsl.

Stutt er í útivistarsvæðin við Hvaleyrarvatn auk skógræktar og fjölbreyttrar náttúru víðsvegar í upplandi bæjarins. Eitt af aðalmarkmiðum skipulags svæðisins er að nýta vel einstakt útsýni til suðurs í átt að Helgafelli og Lönguhlíðum.

65 lóðir fyrir einbýli og 12 lóðir fyrir raðhús

Í þessum fyrsta áfanga eru lausar til úthlutunar 65 lóðir fyrir einbýli og 12 raðhúsalóðir með 3-5 íbúðum. 25 einbýlanna eru á einni hæð og 40 þeirra tveimur hæðum. Fullbyggt mun hverfið hýsa um 550 íbúðir og er áætlaður íbúafjöldi um 1.400.

Ásland 4 – úthlutun lóða í fyrsta áfanga uppbyggingar

Úthlutun einbýlishúsalóða fer fram með útdrætti

Einstaklingar hafa forgang í úthlutun einbýlishúsalóða og einungis lögaðilar geta sótt um raðhúsalóðirnar. Umsækjendur um einbýlishúsalóðir í Áslandi 4 sækja ekki um tilteknar lóðir heldur skila inn almennri umsókn um einbýlishúsalóð.

Umsækjendum með gildar umsóknir verður raðað í númeraröð samkvæmt útdrætti fulltrúa Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og verður þeim í þeirri röð gefinn kostur á vali á lóð á valfundi, sbr. 5 gr. almennra reglna Hafnarfjarðarbæjar um úthlutun lóða og sölu byggingaréttar. Lögaðilar geta sótt um ákveðnar raðhúsalóðir og verður dregið úr umsóknum um hverja lóð.

Lóðarverð endurspeglar hámarks byggingarmagn á lóð. Verð fyrir einbýlishúsalóðir er frá um 21–37 milljónum króna. Verð fyrir raðhúsalóðir er frá um 58–95 milljónum króna.

Sótt er um rafrænt á Mínum síðum

Sótt er um rafrænt og mikilvægt að skila samhliða inn öllum viðeigandi fylgiskjölum til að tryggja að umsókn sé gild.

  • Einstaklingar þurfa að skila inn lánsloforði/yfirlýsingu frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun eða greiðslumati upp á 40 milljónir króna
  • Lögaðili sem sækir um raðhúsalóð skal leggja fram ársreikning eða mat frá viðskiptabanka ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er.

Umsóknarfrestur er til kl. 11 föstudaginn 11. nóvember 

Umsóknarfrestur í fyrstu úthlutun 1. áfanga Áslands 4 er til kl. 11 föstudaginn 11. nóvember. Hraði úrvinnslu umsókna ræðst á fjölda umsókna og verða upplýsingar um það veittar síðar.

Sækja um lóð

Heimild: Hafnarfjordur.is