Ný brú yfir Varmá, austan við Hveragerði, var opnuð fyrir umferð 7. október. Gatnamót Hringvegar við Grænumörk hafa verið lokuð en í staðinn kemur ný tenging Hringvegar við Þelamörk. Bygging brúarinnar er hluti af verkinu Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Hveragerði: Ölfusvegur um Varmá, sem er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Hveragerðisbæjar.
Verkið var boðið út í nóvember 2021 en verktaki er Loftorka Reykjavík. Verkið snýst um nýbyggingu um 780 metra langs vegar frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir austan Varmár.
Stærstur þáttur í verkinu er bygging nýrrar brúar á Varmá norðan Suðurlandsvegar. Brúin yfir Varmá er eftirspennt plötubrú í þremur höfum 47,8 m löng, heildarbreidd er 14,6 m.

Tekið var tillit til allra vegfarenda við byggingu brúarinnar. Gert er ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi yfir brúna og ríðandi umferð undir hana. Reiðstígur undir brú er 4 m breiður með 0,5 m öxlum en handrið er meðfram ánni til að auka öryggi.
Vegurinn á Sunnumörk frá núverandi malbiksenda við Dalsbrú að framtíðar gatnamótum við Þelamörk er um 300 m langur en frá nýju gatnamótunum og nýju brúnni yfir Varmá eru um 210 m. Akbrautin er 7 m breið með 2 m breiðri hjólarein en einnig liggur 3 m breiður göngu- og hjólastígur meðfram götunni.

Austan Varmár liggur nýr Ölfusvegur sem er 7 m breiður með 1,5 m breiðum vegöxlum. Kaflinn frá brúnni og að eldri kafla Ölfusvegar er 220 m langur.
Varmá, norðan Suðurlandsvegar, er á náttúruminjaskrá. Þar er töluverð fiskgengd og því var reynt að valda sem minnstu raski á árfarveginum á framkvæmdatíma. Til að mynda var aðeins leyfilegt að vinna í árfarveginum frá 30. desember 2021 til 1. apríl 2022 með tilliti til veiðitíma og göngutíma laxa.
Heimild: Vegagerðin.is