Home Fréttir Í fréttum Áforma tugþúsunda byggð

Áforma tugþúsunda byggð

257
0
Í burðarliðnum eru 800 íbúðir í hverfinu Grænubyggð. mynd/Aðsend Mynd/Aðsend

Byggingarland fyrir íbúðir í nágrenni Voga dugar til að svara allri íbúafjölgun Íslands, að sögn bæjarstjóra. Íbúabyggð er skipulögð fyrir tugþúsundir landsmanna.

<>

Sveitarfélagið Vogar er framkvæmdaglaðasta sveitarfélag landsins þessa dagana er kemur að nýbyggingum á íbúðarhúsnæði.

Magn íbúða í smíðum í Vogum nemur um 22 prósentum af fjölda allra íbúða í sveit­ar­fé­lag­inu. Þar er þó ekki öll sagan sögð, því í burðarliðnum eru 800 íbúðir í 1.500 íbúða hverfi í svokallaðri Grænubyggð. Enn frekari áætlanir um ný og stór hverfi eru í bígerð.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að skráðir íbú­ar í sveitarfélaginu séu um 1.400. Gert sé ráð fyrir tvöföldun íbúa á næstu árum, jafnvel margföldun síðar. Ekkert annað en innviðauppbygging standi í vegi fyrir að Vogar og nágrannasveitarfélög á Suðurnesjum geti tekið við allri mannfjölgun Íslendinga næstu áratugi.

„Til langrar framtíðar erum við að tala um að hér verði skipulögð íbúabyggð fyrir tugþúsundir íbúa. Hér er nægt landrými, mikil atvinnuuppbygging og stutt í allar áttir,“ segir Gunnar.

Hann segir að landsvæði á Reykjanesi séu óplægður akur sem gæti svarað íbúðaþörf allra landsmanna í framtíðinni.

„Fólk er að uppgötva þetta svæði.“

Gríðarlegt byggingarland sé í nágrenni Voga og byggðir muni smátt og smátt þéttast í átt að höfuð­borgarsvæðinu. Hafnarfjörður horfi til svipaðra landsvæða í uppbyggingu.

Ein lykilástæða fjölgunar íbúa í Vogum er munur á fasteignaverði miðað við höfuðborgarsvæðið. Gunnar segir að í hans nágrenni þurfi fólk heldur ekki að greiða himin­hátt verð fyrir lóðir líkt og þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Kostur sé að sveitarfélagið sé mjög stutt frá öðru þéttbýli.

Spurður hvort það sé þversögn að mestur vöxtur Íslands sé í sveitarfélagi sem samkvæmt jarðvísindum gæti orðið fyrir áhrifum af Reykjaneseldum, segir Gunnar mikilvægt sé að gera reglulega nýtt áhættumat með tilliti til jarðvár.

„Við þurfum að skoða fleiri hluti sem geta ógnað byggð í landinu. Hætta og varnir vegna mögulegra sjávarflóða er eitt sem þarf að setja á dagskrá með sama hætti og við höfum gert með góðum árangri á sviði ofanflóðavarna,“ segir Gunnar.

„En nei, ég held að jarðeldar standi ekki í vegi fyrir upnynyjpbyggingu á Reykjanesi. Okkar sérfræðingar eru sammála um að það sé hægt að bregðast við eldgosum með tilheyrandi vörnum ef hraunflæði ógnar byggð.“

Heimild: Frettabladid.is

Loading..