Home Fréttir Í fréttum Hyggjast opna 120 herbergja hótel við Skógarböðin 2024

Hyggjast opna 120 herbergja hótel við Skógarböðin 2024

376
0
Hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer þegar Skógarböðin voru opnuð 22. maí á þessu ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer, aðaleigendur Skógarbaðanna í Eyjafjarðarsveit gegnt Akureyri, hyggjast reisa 120 herbergja hótel steinsnar frá böðunum. Stefnt er að því að hótelið verði opnað árið 2024.

<>

Hótelið verður í fjörunni um 90 metrum sunnan við Skógarböðin, að sögn Finns. Umsókn hjónanna um breytingu á aðalskipulagi er í ferli hjá yfirvöldum sveitarfélagsins og Finnur er bjartsýnn. „Það var tekið mjög vel á móti okkur,“ segir hann við Akureyri.net.

Stefnt er að því að húsið verði í sama stíl og Skógarböðin. „Já, við ætlum okkur að „fela“ hótelið inni í landslaginu, eins og böðin,“ segir Finnur.

Hann segir að draumurinn um hótel hafi verið fyrir hendi á sínum tíma þegar unnið var að uppbyggingu baðanna en þau hafi þó ekki viljað hugsa of langt þá, að minnsta kosti ekki upphátt! Tímabært sé að láta drauminn rætast enda tilfinninanlegur skortur á hótelgistingu á svæðinu.

Hótelið verður steinsnar sunnan við Skógarböðin, um það bil þar sem rauði hringurinn er dreginn. Gangi hugmyndir Finns og Sigríðar Maríu eftir verður aðkoman að hótelinu frá Eyjafjarðarbraut eystri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Draumurinn var alltaf að samtvinna hótel við böðin. Það verður göngustígur á milli baðanna og hótelsins þannig að hótelgestir þurfi ekki í búningsklefana við böðin heldur fari beint ofan í þegar koma gangandi frá hótelinu.“

Ef leyfi fæst stefnir Finnur á að hefja vinnu við gatnagerð fyrir jól og að steypa undirstöður næsta sumar. Húsið yrði síðan reist á næsta ári og opnað árið 2024 sem fyrr segir. Hugmyndin er að aðkoma að hótelinu verði frá Eyjafjarðarbraut eystri.

Finnur og Sigríður María ætla ekki að reka hótelið sjálf. „Ég ætla að reisa húsið, ég kann það, en reksturinn verður í höndum einhverra sem kunna að reka hótel,” segir Finnur. Viðræður þar um eru á döfinni.

Heimild: Akureyri.net