Borgarráð hefur samþykkt endurskoðaða uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk sem gerir ráð fyrir hraðari uppbyggingu og styttingu biðlista. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðasviði Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt hinni nýju uppbyggingaráætlun munu tuttugu nýir íbúðarkjarnar með 120 íbúðum verða byggðir, ásamt því verða útvegaðar 48 íbúðir þar sem einstaklingar fá þjónustu færanlegs teymis. Áætlunin gildir til ársins 2028 og verður endurskoðuð árlega.
„Þjónusta hefur aukist og ánægja með hana sömuleiðis. Velferðarsvið á hrós skilið fyrir að ganga skipulega til verks í þessari stórhuga uppbyggingu en á dögunum var ákveðið að fara enn hraðar í málið til þess að anna þeirri þjónustuþörf sem hefur myndast á undanförnum misserum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, en hann segir einnig að undanfarin ár hafi átt sér stað fordæmalaus uppbygging á íbúðum fyrir fatlað fólk.
Frá árinu 2017 hafa 170 fatlaðir einstaklingar fengið úthlutað húsnæði, en flestir fengu úthlutað í fyrra, alls 55 einstaklingar. Það eru 136 einstaklingar með fötlun sem eru á biðlista til að fá íbúð úthlutaða. Af þeim eru 22 með lögheimili fyrir utan Reykjavík.
Heimild: Frettabladid.is