Home Fréttir Í fréttum Fimm jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu í pípunum

Fimm jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu í pípunum

265
0
Mynd: Stjórnarráð Íslands - RÚV
Vegagerðin hefur til skoðunar fimm jarðgangakosti eða stokkalausnir á fjölförnum umferðaræðum og stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Fram undan er umtalsverð uppbygging á samgönguinnviðum borginni og nágrannasveitarfélögunum í samræmi við samgöngusáttmálann og áætlun Reykjavíkur um vistvænar, fjölbreyttar og grænar samgöngur.

Þeir fimm kostir sem um ræðir er stokkur undir Sæbraut og Reykjanesbraut frá Holtavegi að Stekkjarbakka, stokkur eða göng undir Miklubraut frá Snorrabraut að Kringlumýri, stokkur í Garðabæ á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss, og yfirbyggður stokkur eða göng við Kaplakrika í Hafnarfirði undir Setbergshamar.

<>
Mynd: Vegagerðin – RÚV

Þá hafa áætlanir um Sundabraut verið á teikniborðinu um árabil, sem þvera myndi Kleppsvík frá Vogahverfi yfir í Grafarvog.

Í skoðun eru þrennskonar lausnir; tvíbreið göng, lágbrú yfir sundin eða hábrú, allt að 30 metra hátt mannvirki. Áætlað er að síðari áfangi Sundabrautar liggi með vegtengingum um Eiðsvík og Geldinganes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð að Kjalarnesi.

Greint var frá því á föstudag að til viðbótar hefði Vegagerðin 18 jarðgangakosti á landsbyggðinni til skoðunar, alls 23 ef taldir eru með kostirnir fimm á höfuðborgarsvæðinu.

Öryggi og arðsemi metin

Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu, að auk öryggissjónarmiða og arðsemi, séu kostirnir metnir út frá svæðisbundnum þáttum sem spili saman og hafi áhrif á ákvarðanatöku og forgangsröðun.

„Við höfum verið að taka saman þá kosti sem hafa verið til skoðunar og umræðu undanfarin ár, sem við erum þá búnir að greina aðeins nánar og meta hvaða áhrif þær hafa, hvort sem um er að ræða arðsemi, öryggi eða tengingu svæða og svo framvegis. Þannig að skýrslan er í sjálfu sér tól til þess að draga saman þær upplýsingar þannig að við getum forgangsraðað jarðgangakostum,“ segir Guðmundur.