Home Fréttir Í fréttum Átján jarðgöng til skoðunar á landsbyggðinni

Átján jarðgöng til skoðunar á landsbyggðinni

214
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Undirbúningur vegna framkvæmda við Fjarðarheiðargöng á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar er langt kominn. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári og að verklok verði síðla árs 2029. Göngin eru efst á lista stjórnvalda þegar kemur að forgangsröðun jarðgangakosta, sem Vegagerðin vinnur að í samræmi við samgönguáætlun Alþingis áranna 2020 til 2034.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni ræðst upphaf framkvæmda við Fjarðarheiðargöng af því hvenær fjármagn verður til reiðu. Nú er unnið úr umsögnum sem bárust við matskýrslu á framkvæmdinni en hún var lögð fram til umsagnar í maí 2022. Samhliða er unnið að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum Múlaþings.

<>

Þá er unnið að undirbúningi jarðganga í Reynisfjalli við Vík og færslu Hringvegar um Mýrdal og hefur Skipulagsstofnun veitt álit á fyrirhuguðum framkvæmdum á svæðinu. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir geta hafist.

Vandasamt og kostnaðarsamt ferli

Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að undirbúningur og gerð jarðganga taki langan tíma og að framkvæmdir séu vandasamt og kostnaðarsamt ferli. Formleg ákvörðun um slíkar stórframkvæmdir sé í höndum Alþingis, en ný greinargerð nýtist sem verkfæri stjórnvalda til þess að forgangsraða jarðgangakostum.

Hann segir að fjölmörg göng á landsbyggðinni hafi verið í umræðunni og fýsileika þeirra þurfi að meta út frá ólíkum aðstæðum á hverjum stað. Mat á kostun og göllum verði að taka mið af staðarháttum og staðbundnum breytum.

Sem dæmi um kosti sem eru í skoðun megi nefna göng til Siglufjarðar um Siglufjarðarskarð, þar sem Strákagöng séu einbreið og orðin úrelt, breikkun á Múlagöngum og jarðgöng í Álftafirði á milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Á sunnanverðum Vestfjörðum séu einnig nokkrir torfærir fjallvegir þar gangakostir hafa verið til skoðunar, um Klettsháls, Mikladal og Hálfdán.

Mynd: RÚV – Björgvin Kolbeinsson

Alls 18 jarðgangakostir til skoðunar

Í skýrslu Vegagerðarinnar þar sem teknir eru saman þeir kostir sem hafa verið til umræðu undanfarin ár og til formlegrar athugunar, eru alls 18 jarðgangakostir til skoðunar á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri vann heildstæða greiningu á valkostunum meðal annars með tilliti til arðsemi framkvæmda og umferðaröryggis. Þá voru tengingar atvinnu- og búsetusvæða metnar ásamt byggðaþróun á svæðunum með mögulegri tilkomu jarðganga.

Greiningin verður grunnur að áframhaldandi umræðu um jarðgangakosti og forgangsröðun þeirra í tengslum við nýja samgönguáætlun fyrir árin 2023 til 2037, sem vinna er hafin við á vettvangi stjórnvalda.

Ólíkar forsendur á hverjum stað

Guðmundur segir margvísleg og ólík staðbundin sjónarmið komi til skoðunar og ráði forgangsröðuninni, auk arðsemismats. „Er vegurinn öruggur, er það aðalfókusinn, eða er aðalfókusinn að grafa göng þar sem umferðin er mest. Hvar lokanir eru mestar.“

„Það er þetta sem við erum meðal annars að vinna eftir, sem og það sem er þekkt forgangsröðun að taka tillit til þess hvort verið sé að rjúfa vetrareinangrun eða erum við að sleppa við hættulega vegarkafla. Það var til dæmis gert við Bolungarvík á sínum tíma, þar sem farið var í jarðgangagerð til þess að koma í stað hættulegs vegarkafla,“ segir Guðmundur.

Hverjum kosti fyrir sig eru gefnar einkunnir sem meðal annars taka mið af styttingu vegalengda á milli byggðarlaga og landsvæða og sérstaklega hvort jarðgöng bæti samgöngur að vetrarlagi í stað fjallvega. Þá er ábati í formi ferðatíma, styttri vegalengda og aukins umferðaröryggis er metinn og veginn á móti kostnaði.

Í skýrslunni kemur fram að um ólíkar forsendur kunni að vera á bak við hugmyndir um einstakar framkvæmdir, í sumum tilfellum getur arðsemi framkvæmda orðið af styttingu vegalengda og ferðatíma, en önnur verkefni geta verið mikilvægar vegna öryggissjónarmiða og náttúruvá, svo sem vegna sjóflóða, grjóthruni eða jarðsigi.

Þá geta jarðgöng rofið vetrareinangrun einstakra byggðarlaga og sveitarfélaga auk þess sem umhverfissjónarmið eru vaxandi breyta, meðal annars vegna krafna um aukna sjálfbærni sem er eitt af markmiðum samgönguáætlunar.

Mynd: RÚV

Fjarðarheiðargöng lengi á teikniborðinu

Einn hluti samgönguáætlunar fyrir árin 2020 til 2034, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 er sérstök jarðgangaáætlun. Þar kemur fram að miðað sé við að á hverjum tíma sé unnið að einum göngum í landinu. Á þeim tíma voru framkvæmdum við Dýrafjarðargöng að ljúka, en þau opnuðu 25. október 2020.

Í áætluninni var lagt til að upphafi framkvæmda við Fjarðarheiðargöng yrði flýtt frá fyrri áætlun og þau göng sett efst á forgangslistann. Var það gert í samræmi við niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi.

Göngin verða lengstu jarðgöng landsins, alls 13,4 kílómetrar og tengja Egilsstaði og Seyðisfjörð. Þau leysa af hólmi fjallveg um Fjarðarheiði en vegurinn er jafnan mikill farartálmi yfir vetrarmánuðina.

Fimm ára seinkun

Þegar samgönguáætlunin var samþykkt var miðað við framkvæmdir við göngin myndu hefjast í ár og að verklok yrðu árið 2024. Í kjölfarið var gert ráð fyrir að framkvæmdir myndu hefjast á göngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og þar á eftir á göngum frá Mjóafirði til Norðfjarðar. Þannig yrði komið á hringtengingu á svæðinu með þessum þremur jarðgöngum og vegtengingum.

 

Þessi áform hafa ekki gengið eftir og nú er stefnt að því að verklok vegna Fjarðarheiðaganga verði seinni hluta ársins 2029. Til stendur að bjóða verkið út á þessu ári og hefja framkvæmdir 2023. Undirbúningur framkvæmda er í gangi og unnið að hönnun ganganna og aðkomuvegum, en þrjár veglínur eru í umhverfismati vegna legu vegar Egilsstaðamegin og afstaða ekki tekin fyrr en niðurstöður matsins liggja fyrir.

Ríkisframlög standi undir helmingi kostnaðar

Milljarður króna er áætlaður í verkið á þessu ári og tveir á næstu tveimur árum. Gert var ráð fyrir í áætlun stjórnvalda fyrir tveimur árum að beinn kostnaður ríkisins við göngin yrði 35 milljaðar en framkvæmdirnar verða fjármagnaðar bæði með ríkisframlagi og veggjöldum.

Í jarðgangaáætluninni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að framlög af samgönguáætlun standi undir helmingi framkvæmdakostnaðar ganga. Þá segir að stefnt sé að því að gjaldtaka af umferð um göngin standi undir hinum helmingi kostnaðar við framkvæmdir. Sú innheimta fjármagni rekstur og viðhald ganganna að framkvæmdum loknum.

Alþingi samþykkti jafnframt árið 2020 lög um sérstök samvinnuverkefni sem heimila Vegagerðinni að gera samninga við einkaaðila um samgönguframkvæmdir. Þar eru tvenn jarðgöng tiltekin annars vegar göng í Reynisfjalli og hins vegar ný Hvalfjarðargöng, til hliðar við núverandi göng undir fjörðinn með gagnstæðri akstursstefnu.

Heimild: Ruv.is