Home Fréttir Í fréttum Aukin skattlagning á íbúa vegna jarðganga

Aukin skattlagning á íbúa vegna jarðganga

83
0
Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Þóroddur Bjarnason, prófessor við háskóla Íslands, segir varasamt út frá byggðasjónarmiðum að íbúar á einu svæði borgi fyrir göng sem leggja á annars staðar á landinu. Flest göng eru á norðanverðum Vestfjörðum, við Tröllaskaga og á Mið-Austurlandi og Þóroddur segist setja spurningamerki við að skattleggja eigi íbúa þessara svæða sérstaklega, með gjaldtöku í göngin, vegna þess að farið var í jarðgangaframkvæmdir á sínum tíma til þess að hjálpa þeim.

„Það sem maður kannski staldrar við er þessi hugmynd um að leggja veggjöld á þau göng sem þegar hafa verið byggð til þess að byggja göng annars staðar. Ef við tökum dæmi eins og Bolungarvík þá erum við að tala um að ríkið ætli sér að taka 4,3 milljarða af umferð milli þessa 900 manna byggðarlags og umheimsins og þá má alveg spyrja, jú það þarf að byggja göng og það þarf að gera alls konar hluti en bera Bolvíkingar sérstaka ábyrgð á því umfram íbúa á Ísafirði eða Súðavík að það sé gert annars staðar. Það er kannski þetta sem maður setur spurningamerki við,“ sagði Þóroddur á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun.

<>

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2023 til 2027 segir að stofnað verði opinbert félag um jarðgangagerð. Bein framlög ríkisins nemi 25 millörðum krónum á fimmtán árum og að upphæðin eigi að standa undir helmingi framkvæmdakostnaðar. Hinn helmingurinn komi frá gjaldtöku af umferð í göngunum. Fjarðarheiðargöng verða fyrstu göngin samkvæmt jarðgangaáætluninni.

Þóroddur segir að miðað við áætlun ríkisstjórnarinnar sé hægt að ráð fyrir að ökumenn greiði um 300 krónur fyrir hverja ferð. Þá megi spyrja sig hvers vegna skattar og gjöld af ökutækjum séu ekki öll notuð í vegakerfið. „Svo þegar kemur að því að segja, já en vegakerfið er ekki í lagi.

Þá segja menn, þá þurfum við bara að rukka ennþá meira, og þá þurfum við að rukka annað hvort þá, eins og með Hvalfjarðargöngin sem að nú þegar borgað fyrir göngin, eða velta byrðunum á þessi samfélög sem stóðu svo tæpt, ef við horfum á eins og Héðinsfjarðargöngin.

Þar sem að þessi litlu samfélög, Ólafsfjörður og Siglufjörður, þarna var samfelld fólksfækkun í 40 ár. Göngin opna og fólksfækkun stöðvast, ekki að það sé blússandi vöxtur en þau eru bara mjög stabíl. Og ef við tölum um 300 krónur á hverja ferð þá erum við að tala um að bara traffíkin á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar eigi að skila ríkinu einum og hálfum milljarði.

Síðan ef menn vilja fara út úr Fjallabyggð, annað hvort í áttina að Dalvík eða í Skagafjörð að þá séu það 1,2 milljarðar í viðbót, þannig að það séu 3,7 milljarðar sem við ætlum að leggja á fólk í Fjallabyggð vegna þess að fyrir tíu árum fórum við í þessar framkvæmdir til þess að hjálpa þeim,“ segir Þóroddur.

Heimild: Ruv.is