
Áformað er að nýtt íbúðahverfi með allt að 360 íbúðum bætist við á svæðinu vestan og norðan Leirtjarnar í Úlfarsárdal. Nú þegar eru í byggingu íbúðarhús nokkur við Leirtjörn, þ.e. við göturnar Silfratjörn, Rökkvatjörn, Jarpstjörn og Gæfutjörn.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti skipulagslýsingu hverfisins á fundi sínum 29. júní sl. en framundan er vinna við deiliskipulagið sjálft. Stefnt er að markvissu samráðsferli á skipulagstímabilinu.
Tillaga auglýst næsta vor
Vinna við tillögu að nýju deiliskipulagi mun standa fram á næsta ár en búist er við því að deiliskipulagstillaga verði auglýst næsta vor og brugðist við athugasemdum í framhaldinu, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Heimild: Mbl.is