Home Fréttir Í fréttum Kæra fyrirhugaða veglagningu og vilja nýtt umhverfismat

Kæra fyrirhugaða veglagningu og vilja nýtt umhverfismat

201
0
Helga Kristín Gunnarsdóttir, talskona Vina Vatsendahvarfs. Mynd: RÚV
Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulag þriðja áfanga Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf. Hópur íbúa á svæðinu hyggst kæra fyrirhugaða framkvæmd, þar sem hún byggir á nærri tveggja áratuga gömlu umhverfismati.

Deiliskipulagið, sem Reykjavíkurborg og Kópavogsbær standa að, nær frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. Vegurinn verður um 1,9 kílómetrar að lengd.

<>

Markmiðið með þessu er að tengja jaðarsvæði í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ við meginumferðaræðar. Framkvæmdin felur í sér að stofnvegur með tveimur akreinum verði lagður í hvora átt á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar.

Einnig stendur til að reisa fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut og leggja hjólastíg frá Rjúpnavegi í Kópavogi og inn í Elliðaárdal.

Á Vatnsendahvarfi er varpland farfugla og útivistarsvæði. Fyrirhuguð framkvæmd leggst því illa í hóp íbúa nálægt framkvæmdarsvæðinu, sem hyggst kæra málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

„Það er ekki hægt að byggja svona gríðarlega stóra framkvæmd á umhverfismati sem er að verða tuttugu ára gamalt. Okkur finnst svörin sem við höfum fengið frá Skipulagsstofnun og sveitarfélögunum ófullnægjandi.

Af hverju það er ekki hægt að setja þarfir umhverfis og íbúa í forgang. Sérstaklega þegar um er að ræða vegaframkvæmd sem hefur verið á dagskrá í fjörutíu ár og þarf að endurskoða,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir, sem er í forsvari fyrir íbúasamtökin Vini Vatnsendahvarfs.

Helga skilur ekki hvers vegna Arnarnesvegur verði ekki lagður í stokk eða göng.

„Þetta er hæsta hæð höfuðborgarsvæðisins, ótrúlega dýrmætt útivistarsvæði og varplendi farfuglategunda. Þetta er mjög mikið notað útivistarsvæði, hjá bæði íbúum Kópavogs og Breiðholts. Svo við viljum að það sé endurskoðað, vegaframkvæmdin í heild sinni og heildarmyndin sé skoðuð með komandi kynslóðir í huga.“

Heimild: Ruv.is