Þór er í skipulagðri eftirlitsferð, lagði upp frá Reykjavík og kom við í Grímsey í dag. Skipverjar fluttu stuðlabergsgrjótið í land í gúmbát og var það híft í land. Grjótið var á sex brettum og hvert þeirra hátt í tonn að þyngd.
„Við erum með stuðlabergsgrjót sem á að vera í kirkjunni. Þeir tóku fyrir okkur sex bretti af grjóti,“ segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju, hæstánægður með aðstoð Landhelgisgæslunnar. Án þeirrar hjálpar hefði flutningskostnaður getað orðið mjög hár. „Það var alveg snilld að gætu tekið þetta með.“
„Georg [Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar] kom með þeim. Við sýndum honum grunninn sem er búið að steypa upp,“ segir Alfreð. Hann segir að kirkjubyggingin hafi almennt gengið vel en veðrið hafi þó strítt mönnum aðeins. Mikil bleyta hefur gert mönnum erfiðara fyrir að koma tækjum og búnaði fyrir á byggingarstaðnum.
Í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn fréttastofu segir að það hafi verið gæslunni ljúft og skylt að verða við bón sóknarnefndar. „Landhelgisgæslan tekur stolt þátt í þessu mikilvæga samfélagsverkefni og það er afar ánægjulegt að geta lagt okkar lóð á vogarskálina við framkvæmdir á nyrsta kirkjubóli landsins,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Auk stuðlabergsgrjótsins flutti Þór sex tonn af timbri norður til kirkjubyggingarinnar. Því var skipað upp á Dalvík og þaðan verður það flutt út í Grímsey.
Heimild: Ruv.is