Home Fréttir Í fréttum Flugvallarskipulag fellt úr gildi vegna formgalla

Flugvallarskipulag fellt úr gildi vegna formgalla

63
0

Deiliskipulag sem fól í sér brotthvarf þriðju flugbrautar Reykjavíkurflugvallar hefur verið fellt úr gildi. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað þann úrskurð upp í dag að formgalli hafi verið á málsmeðferð borgarstjórnar Reykjavíkur. Borgarstjóri telur þetta engu breyta um áform borgarinnar.

<>

Það voru eigendur flugskýla í Fluggörðum sem kærðu deiliskipulagið en það fól í sér að minnsta flugbrautin skyldi víkja en einnig flugskýlin, sem og öll flugtengd starfsemi á svæðinu. Í dag höfðu þeir sigur, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi skipulagið úr gildi vegna formgalla í málsmeðferð borgarstjórnar, þar sem ákvörðun hennar hafi verið tekin áður en öll gögn málsins lágu fyrir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kvaðst nú síðdegis aðeins hafa lauslega kynnt sér úrskurðinn. Hann teldi þó að hann breytti engu efnislega um málið, hvorki um deiliskipulagið né þriðju brautina. Hugsanlega þyrfti að leggja deiliskipulagið fyrir aftur til endurskoðunar eða í versta falli til endurauglýsingar.

Álfhild Nielsen, talsmaður kærenda, sagðist lítið geta sagt þar sem hún hafði ekki náð að kynna sér úrskurðinn. Hún teldi þó að niðurfelling deiliskipulagsins þýddi að eldra skipulag tæki aftur gildi, það er Reykjavíkurflugvöllur í óbreyttri mynd með óskertum þremur flugbrautum. Það gilti þar til nýtt deiliskipulag hefði verið gert og kvaðst Álfhild vonast til að borgarstjórn bæri þá gæfu til að fara að lögum.

Þá vaknar sú spurning hvort Reykjavíkurborg sé stætt á því að halda áfram málshöfðun gegn innanríkisráðherra til að knýja á um lokun flugbrautarinnar umdeildu nú þegar deiliskipulag, sem kvað á um lokun hennar, hefur verið fellt úr gildi.

Heimild: Vísir.is