Home Fréttir Í fréttum Kannar hug fólks til breytinga á tveimur köflum hringvegarins

Kannar hug fólks til breytinga á tveimur köflum hringvegarins

137
0
Svona er hugmyndin að leggja hringveginn framhjá byggðinni í Borgarnesi, samkvæmt gildandi aðalskipulagi. En á að standa við þau áform eða hætta við þau? SAMGÖNGUFÉLAGIÐ/ENVALYS

Samgöngufélagið leitar eftir afstöðu almennings til þess hvort breyta eigi legu hringvegarins á tveimur köflum á Vesturlandi. Frestur til að taka þátt í skoðanakönnun félagsins rennur út 10. júní.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndskeið sem félagið hefur látið gera af nýjum vegstæðum, annarsvegar yfir Grunnafjörð milli Akraness og Borgarness, og hins vegar framhjá þéttbýlinu í Borgarnesi.

Svona myndi vegurinn líta út, ef hann yrði færður út úr þéttbýlinu í Borgarnesi.
SAMGÖNGUFÉLAGIÐ/ENVALYS

Borgarfjarðarbrúin reyndist lykillinn að því að Brúartorg í Borgarnesi varð ein helsta þjónustumiðstöð hringvegarins en hefur hins vegar þann galla að leiða þunga bílaumferð í gegnum bæinn. Í gildandi aðalskipulagi Borgarbyggðar er þó gert ráð fyrir að vegurinn liggi í framtíðinni á nýrri vegfyllingu utan við byggðina en myndband, sem Samgöngufélagið hefur birt, sýnir hvernig vegurinn kæmi til með að líta út.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, er formaður Samgöngufélagsins.
EGILL AÐALSTEINSSON

Umræða innan sveitarstjórnar um að falla frá þessum áformum er hins vegar ástæða þess að Samgöngufélagið ákvað að láta gera myndbandið en efna um leið til skoðanakönnunar á netinu um afstöðu almennings til þessa valkosts, að sögn Jónasar Guðmundssonar, formanns félagsins.

En félagið ákvað samtímis að leita eftir áliti fólks á annarri breytingu, þeirri að hringvegurinn liggi í framtíðinni vestur fyrir Akrafjall, langleiðina að Akranesi, og síðan yfir mynni Grunnafjarðar. Þannig myndi leiðin milli Akraness og Borgarness styttast um sjö kílómetra.

Brú yfir mynni Grunnafjarðar myndi stytta leiðina milli Akraness og Borgarness um sjö kílómetra. Akrafjall í baksýn og Melasveit til hægri.
SAMGÖNGUFÉLAGIÐ/ENVALYS

Jónas segist sjálfur telja að við endurbætur hringvegarins um svæðið sé þetta langhagkvæmasta lausnin fyrir þjóðfélagið og segist með þessu framtaki vilja hvetja til þess að þessir valkostir verði kannaðir frekar, nú þegar framundan sé að taka ákvarðanir um breikkun hringvegarins og framtíðarlegu hans milli Kjalarness og Borgarness.

Þeir sem vilja segja álit sitt geta nálgast kannanirnar tvær á vefnum samgongur.is.

Heimild: Visir.is