Home Fréttir Í fréttum Leita að stáli fyrir Nýjan Landspítala

Leita að stáli fyrir Nýjan Landspítala

318
0
Mynd: Nýr Landspítali/NLSH ohf. - Aðsend mynd
Fyrsta skóflustungan að nýjum Landspítala við Hringbraut var tekin haustið 2018 og var þá áætlað að meðferðarkjarninn yrði tekinn í notkun árið 2024. Síðan þá hafa komið upp ýmis ágreiningsmál um framkvæmdina og fyrirhugaða útkomu.

Í seinni sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá því að Krabbameinsfélag Íslands hefði nýverið dregið til baka 450 milljóna króna styrk til Landspítala sem var ætlaður nýrri dagdeild blóð- og krabbameinslækninga. Krabbameinsfélagið segir stjórnvöld hafa sýnt áhugaleysi en starfseminni er ekki ætlaður staður í nýjum meðferðarkjarna Landspítala.

<>

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir heilbrigðisráðherra hafa falið nýjum Landspítala að að vinna þarfagreiningu fyrir starfsemi dag- og göngudeildar krabbameinssjúkra í nýju skipulagi innan Hringbrautar.

Í þeirri vinnu, sem nú þegar sé hafin, verði núverandi húsnæði og starfsemi dag- og göngudeildarinnar yfirfarin. Hann segir þetta mál og heildaruppbygginu Nýs Landspítala í algjörum forgangi, enda sé það langstærsta fjárfestingarverkefni ríkissjóðs.

En hver er staðan á þessu risastóra verkefni? 

„Staðan núna er sú að við erum að byggja upp meðferðarkjarnann og það verður búið eftir svona, eigum við að segja í dag, fimm ár og starfsemin að flytja inn 2027-2028, það fer alveg eftir því hvað nýi spítalinn er fljótur að slípa sig til og að það skapist ekki neinir erfiðleikar núna á framkvæmdatímanum.

En við erum með þessa 70 þúsund fermetra byggingu á fullri ferð og fyrir fólk sem er að fylgjast með og getur séð yfir framkvæmdagirðinguna að hún rís upp af fullum krafti. Á sama tíma erum við búin að taka jarðvinnu núna fyrir rannsóknar húsið sem er 17 þúsund fermetra og það eru bæði þjónustu og vísindarannsóknir fyrir spítalann og allt spítalaumhverfið.

Við byrjum að steypa það upp núna í haust. Við erum líka að fara að steypa bílastæðakjallara og bílastæðahús þannig að það eru fjögur stór uppsteypuverkefni núna niðri á hringbraut og sama tíma erum við að fullnaðarhanna 9 þúsund fermetra hús við hliðina á læknagarði fyrir heilbrigðisvísindasvið háskólans og Nýr landspítali er að verkefnastýra því fyrir háskólann og síðan eftir eitt og hálft ár förum við að steypa það upp.

Þannig að það verða þarna eftir, eigum við ekki að segja tvö ár verða mjög mörg stór uppsteypuverkefni og frágangsverkefni á húsum þarna niður frá.”

Sem sagt, mikil steypa, mikið stál.

Frá innrás Rússa í Úkraínu hefur hrávöruverð hækkað verulega og framboð hefur verið skert. Hefur það áhrif á uppbyggingu spítalans? 

„Já það hefur gert það eigum við ekki að segja jafnvel með beinum hætti því að hrávöruverð hefur vissulega breyst mjög hratt eins og stálverð og það sem við erum að gera núna er bara steypa og stál, það má eiginlega segja það.

Við erum bara að steypa og síðan er það bendistálið og stálvirki sem við erum að setja upp og stálsúlur, ísteyptar stálsúlur. Þannig að þetta hefur valdið verktakanum ófyrirsjáanlegum aðstæðum og það er ekki bara hjá þessum verktaka, það er að gerast hjá öllum verktökum bæði hér á Íslandi og annars staðar í Evrópu.

Það má segja það að birgjarnir sem eru að leita að stáli, þeir séu að leita að stáli. Því að það hefur mikið frá Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Úkraínu sjálfri, það hefur verið skorið á þá þræði. Þannig að þessi innrás rússa er að valda ýmsum erfiðleikum sem við sjáum birtast auðvitað í öllum hagtölum líka.

Byggingarvísitalan er búin að hækka um 5% frá áramótum. Ég man vart eftir því að hún hafi hækkað svo mikið á svo stuttum tíma. En sem betur fer eru allir að vinna að því, birgjar og verktakar og annað, að að sjá til þess að verkefnið stöðvist ekki. Það er þess vegna kraftur í verkefninu en menn þurfa að hafa meira fyrir því heldur en áður að útvega sér efni.” Segir Gunnar.

Mun þetta þá koma niður á tímaplani og kostnaðaráætlun? 

„Við erum að vona að það komi ekki niður á tímanum, að verkefnið haldi áfram. En inni í öllum samningum, alveg sama hvort það sé þessi samningur eða aðrir, segjum vel flestum samningum að þá eru ákvæði um það að ef það verða svona ófyrirsjáanlegar aðstæður að þá eigi verkkaupið að koma til móts við það og það er einmitt ferlið sem við erum í núna með verktakanum að fara yfir þá þætti en þetta er eitt stærsta verkefni Íslandssögunnar og sem betur fer er það enn á fullri ferð.”

Er verkefnið á áætlun? 

„Það er á þeirri áætlun sem er í gildi á hverjum tíma en áætlanirnar hafa vissulega verið endurskoðaðar. Grunnurinn sem við erum að vinna eftir í dag er áætlun sem er gerð 2009 eða 2010 sem er forsendan að því er það verði lokað í Fossvogi, lokað rannsóknarhúsinu í 1A og lokað ýmsum leigueignum eða öðrum eignum sem, eigum við ekki að segja, muna tímana tvenna. Það verður þétt upp á Hringbrautinni og starfsemi sem er í ýmsum húsum þar er breytt.” Segir Gunnar.

Erlenda ráðgjafafyrirtæki McKinsey gerði þarfagreiningu vegna Nýs Landspítala fyrir heilbrigðisráðuneytið fyrr á árinu. Í henni kom meðal annars fram að þörf fyrir rými á Landspítala gæti á næstu árum orðið allt að helmingi meiri en nýr landspítali nær að svara. Þýðir það að nú þegar þurfi að áforma að stækka bygginguna?

„Án þess að vera að réttlæta eitthvað þá erum við að byggja í samræmi við þessar forsendur sem liggja fyrir í verkefninu. McKinsey bendir réttilega á það líka að ef það er fundin lausn á svokölluðum öldrunarsjúklingum eða langlegusjúklingum og um leið líka svona þessari heimaþjónustu og annað að þá er rúmafjöldinn nægilegur miðað við okkar forsendur.

Ef við lítum á byggingarverkefnið og horfum til 2025 eða 2030 að þá er þetta nægilegt en vissulega ef  að það verða mjög stórir hópar af langlegusjúklingum inni á spítalanum á þá er niðurstaðan eins og McKinsey bendir á að það vantar þó nokkuð mikið af legurýmum.“ Segir hann.

Skýrslan hafi þó ekki þótt vera tilefni til að stækka verkefnið frekar að sinni. Í haust var vakin athygli á því að ekki væri gert ráð fyrir nýrri geðdeild í byggingu nýs landspítala. Heilbrigðisráðherra sagði þá að það þyrfti að endurskoða. Hafa áætlanir breyst í þeim málum?

„Heilbrigðisráðuneytið ákvað síðastliðið haust að fela okkur hjá Nýjum Landspítala að skoða sérstaklega húsnæði geðdeildar en síðan var tekin ákvörðun um það af stjórn og svokölluðum stýrihópum um heildaruppbyggingu á Landspítala að útvíkka það.

Við höfum verið að skoða ástand á byggingum og eiginleika þeirra til þess að geta veitt þessa þjónustu og rekstrarhæfi þeirra til þess og í ljósi þessa munum við koma til með tillögur þess efnis, hvernig byggingunum verður best ráðstafað til lengdar.

Svo má ekki gleyma því að á Hringbrautinni, þrátt fyrir þessa miklu uppbyggingu sem er þar í dag, að það eru fjölmargir byggingarreitir eftir og þeir, í deiliskipulaginu, voru teiknaðir út en ekki gert nákvæmlega grein fyrir því hvers konar starfsemi skyldi vera þar. Við höfum þar að vísu tilvísun til dag-, göngu- og legudeildarhús og síðan annað sem er þá óskilgreint fyrir spítalann eða Háskólann.” Segir Gunnar.

Þannig að þetta er ekki endilega lokaplan? 

„Ég er búin að vera í þessu síðan 2009 stanslaust og það er alltaf eitthvað sem er að bætast við og að breytast. Ég er alveg klár á því að þegar að þú ert orðin jafngömul og ég þá muntu líta til hægri og vinstri og manst eftir því að á einhverjum tímapunkti var gert ráð fyrir því að byggja þetta en það verður mikið meira því að þjónstuhópurinn er alltaf að stækka.” Segir Gunnar að lokum.

Heimild: Ruv.is