Home Fréttir Í fréttum Hlut­fall er­lends vinnu­afls aldrei hærra og þörf á aukningu

Hlut­fall er­lends vinnu­afls aldrei hærra og þörf á aukningu

192
0
Mynd: VÍSIR/VILHELM

Fjölgun Íslendinga dugar ekki til þess að mæta eftirspurn eftir vinnuafli og eykst hlutfall erlends vinnuafls milli ára. Á árinu 2005 voru innflytjendur á aldrinum 20 til 59 ára 7% af fjölda starfandi á vinnumarkaði hér á landi. Núna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022 var hlutfallið komið í 22,3% og hefur aldrei verið hærra.

<>

Hlutfall innflytjenda fór undir 20% á árinu 2021 en hefur nú náð fyrri stöðu. Þetta kemur fram í samantekt hagfræðideildar Landsbankans en erlendir ríkisborgarar voru innan við 7% af íbúafjölda á Íslandi á árunum 2010 til 2017 og eru í ár um 15%. Frá árinu 2010 hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 8,4% á meðan erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um 160%.

Samtök atvinnulífsins hafa gefið út að flytja þurfi inn 12 þúsund starfsmenn á næstu fjórum árum. Störfum muni fjölga um 15 þúsund á árunum 2022 til 2025 en á sama tíma muni innlendum íbúum á starfsaldri einungis fjölga um 3 þúsund. Ef spá samtakanna rætist mun hlutfall innflytjenda af starfandi fólki vera komið yfir 27% á árinu 2025.

Þurfi að laða erlent háskólamenntað starfsfólk til landsins

„Fram til þessa hefur starfsfólk úr röðum innflytjenda einkum verið ófaglært, en bent hefur verið á að á næstu árum verði ekki síður skortur á háskólamenntuðu fólki. Í því sambandi þurfi laða erlent háskólamenntað starfsfólk til landsins,“ segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Í mars taldi Vinnumálastofnun að fjöldi atvinnulausra erlendra ríkisborgara samsvaraði 10,5% atvinnuleysi meðal þeirra. Á sama tíma var almennt atvinnuleysi allra 4,9% eða innan við helmingi minna en hjá erlendum ríkisborgurum.

Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur aukist mikið á síðustu árum úr því að vera um 15% á árinu 2010 í yfir 40% upp á síðkastið. Hlutfallið hefur verið tæp 43% á þessu ári og hefur aukist úr um 40% frá sumrinu 2021, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

Á árinu 2020 voru um 6.500 atvinnulausir erlendir ríkisborgarar hér á landi og fækkaði aftur í fyrra. Nýjustu gögn frá því í apríl benda til þess að nú séu um 3.850 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysiskrá. Árið 2017 voru innan við eitt þúsund erlendir ríkisborgarar að meðaltali á atvinnuleysisskrá.

Heimild: Visir.is