Home Fréttir Í fréttum Eigandi starfsmannaleigu ákærður fyrir skattsvik og peningaþvætti

Eigandi starfsmannaleigu ákærður fyrir skattsvik og peningaþvætti

1139
0
Mynd: Dv.is

Eigandi starfsmannaleigu ákærður fyrir skattsvik og peningaþvætti – Talinn hafa svikið yfir 160 milljónir króna undan skatti.

<>

Sverrir Halldór Ólafsson, fyrrum eigandi starfsmannaleigunnar Ztrong Balkan ehf., hefur verið ákærður af Héraðssaksóknara fyrir meiriháttar brot á skattalögum og fyrir peningaþvætti við í rekstri einkahlutafélags.

Ztrong Balkan, sem var með aðsetur í Síðumúla, fór í þrot vorið 2020, aðeins rúmu ári eftir að félagið hóf starfsemi eins og DV greindi frá á sínum tíma. Lýstar kröfur í búið voru um 155 og hálf milljón. Engar eignir fundust í búinu upp í kröfur en starfsemi þess var síðan sent til skoðunar hjá héraðssaksóknara.

Rekið eins og starfsmannaleiga

Í samtali við DV sagði skiptastjóri félagsins, Sigurbjörn Magnússon lögmaður, að opinberlega hafi Ztrong Balkan verið verktakafyrirtæki en það lýsti ekki starfsemi félagsins með réttmætum hætti.

„Fyrirsvarsmaður félagsins, Sverrir Halldór Ólafsson, lýsti því yfir að um væri að ræða verktakafyrirtæki en réttara væri að lýsa félaginu sem starfsmannaleigu. Félagið sendi starfsmenn á sínum vegum í ýmis byggingaverkefni á höfuðborgarsvæðinu.

Stærð gjaldþrotsins skýrist einkum af því að nokkur fjöldi erlendra starfsmanna var á launaskrá félagsins en félagið stóð ekki í skilum á opinberum gjöldum og iðgjöldum í lífeyrissjóð o.fl. vegna þeirra og er það mál nú til skoðunar hjá héraðssaksóknara,“ sagði Sigurbjörn.

Rannsókn Héraðssaksóknara leiddi svo til þess að ákæra var gefin út á hendur Sverri Halldóri og tengist hún rekstri fjögurra einkahlutafélaga, K7077 ehf, S7077 ehf, Skjöldu ehf. og Ztrong Balkan ehf.

Er Sverrir Halldór ákærður fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti eða staðgreiðslu opinberra gjalda við rekstur félaganna og hafa nýtt fjármunina í annan rekstur sem telst sem peningaþvætti. Brotin áttu sér öll stað á rekstrarárinu 2019 og nema rúmlega 160 milljónum króna alls.

Verði hann fundinn sekur má hann búast við háum sektum og allt að tveggja ára fangelsi.

Heimild: Dv.is