Home Fréttir Í fréttum Verkís sér um göngu- og hjólabrú yfir østre Aker Vei í Noregi

Verkís sér um göngu- og hjólabrú yfir østre Aker Vei í Noregi

104
0
Handteiknuð skissa frá Vinnustofu Þverá.

Verkís sér um vega- og umferðarhönnun, landslagsarkitektúr og verkefnisstjórn og svo sér Vinnustofan Þverá um arkitektúr og VBV um burðarþol. Verkkaupi er SVV eða Statens vegvesen, region Øst í Osló.

<>

Fyrirhuguð uppbygging norðan Østre Aker vei á og við lóð Siemens gerir ráð fyrir allt að 8.000 nýjum störfum, það kallar á að almenningssamgöngur og stígakerfi anni auknum fjölda notenda. Verkefnið felur í sér að hanna göngu- og hjólabrú yfir Østre Aker vei, umhverfi brúar, strætóvasa, hjóla- og göngustíga ásamt tengingu stígakerfis við núverandi og ný umferðarmannvirki norðan og sunnan vegar. Staðsetning og hönnun á strætóstoppistöðvum, dvalarsvæðum og reiðhjólastæðum beggja vegna vegarins eru einnig hlutar verkefnisins.

Aðstæður norðan og sunnan við Østre Aker vei eru ólíkar og landslagshönnun, -mat og -lausnir eru nýttar í ríkum mæli beggja vegna vegar. Handteiknaðar skissur eru notaðar til að sýna hugmyndir um mögulegar lausnir og útfærslur á myndrænan, skýran hátt.

Norðan við veginn eru þættir sem taka þarf tillit til, m.a. er lítið pláss til umráða, mikill hæðarmunur, nálægð við veg þar sem umferðarhraði er 80 km á klukkustund og búið er að mæla inn og meta fallegan trjágróður með hátt verndargildi. Ósk er um að sýna möguleika til dvalar við stoppistöðina í skjóli frá umferð og einnig er ósk um að trjáraðir þar fái að standa.

Við hönnun er stuðst við handbók um Universell utforming. Það kallar á 110 metra langan rampa frá brú að strætóstoppistöð norðan við veg. Tré og trjáraðir sem ósk er um að vernda munu víkja við þessa lausn.

Dvalar- og biðsvæðum komið fyrir á þröngu svæði, dýr lausn sem kallar á stoðveggi og tröppur. Tré við stoppustöð og trjáröð í nágrenni víkja.

Í framhaldinu voru því aðrar lausnir kynntar og lagt til að skoða staðsetningu strætóstoppistöðvar uppi á hæð við enda göngu- og hjólabrúar en þessari staðsetningu fylgja margir kostir. Tillögurnar voru sýndar með handteiknuðum skissum og SVV hyggst nota skissur frá Verkís í sínum rökstuðningi við val á staðsetningu strætóstoppistöðvar.

Rampi, stoðveggir og tröppur verða óþarfar, nægt pláss er fyrir reiðhjólastæði, hægt er að vernda trjáraðir að mestu. Auk þess er svæðið vel gróið og fjarlægð frá vegi og staðsetning strætóstöðvar dregur úr óþægindum, hávaða- og rykmengun sem fylgir hraðri umferð.

Sunnan við veginn eru aðrir þættir sem blasa við. Breiðar tröppur tengjast göngubrú, tröppurnar deilast í vær áttir, í átt að stoppistöð og stígum. Við það myndast skjólsælt svæði sem hlífir gegn umferðarhávaða og vindi næst tröppunum.

Fimm metra breiður hraðhjólastígur með tvístefnu fylgir Østre Aker vei en við strætóstoppistöð, þar sem fólk þarf að þvera hjólastíg, eru aðgerðir til að draga úr hraða reiðhjólaumferðar. Hjólastígurinn er mjókkaður úr fimm metrum í fjóra og beygjur við strætóstoppið eru hafðar krappari en ella á stígnum. Auk þessa er ,,hlið“/portal liður í að draga úr hraða reiðhjólaumferðar við strætóstoppistöð.

Við hönnun á hliði (portal) til að hægja á umferð og auka vægi gangandi vegfarenda umfram reiðhjólamanna við þverun reiðhjólastígs koma margir þættir til greina. Sjónrænir þættir, breyting á hæð hjólastígs á löngum kafla og önnur yfirborðsefni en á stíg, lýsing og gróður eru notuð hér til að undirstrika hliðið.

Á svæðum sem einkum nýtast til umferðar og dvalar gangandi fólks er efnisval meðal þess sem gefur það til kynna. Skilaboðum er einnig komið á framfæri með þáttum eins og afmörkun, yfirborðsefnum og staðsetningu á bekkjum, lýsingu og gróðri og er það gert í þessu verkefni.

Heimild: Verkís.is