Home Fréttir Í fréttum Kynningarfundur um miðborgarleikskóla í Reykjavík

Kynningarfundur um miðborgarleikskóla í Reykjavík

95
0
Mynd: Reykjavík.is

Kynningarfundur um miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð verður haldinn 28. apríl klukkan 17 á sjöundu hæð í Borgartúni 14.

<>

Borgarráð samþykkti í mars að Miðborgarleikskóli/fjölskyldumiðstöð fari í útboð svo framkvæmdir geti hafist í sumar. Svæðið er á Njálsgöturóló eða Njálsgötu 89 og stefnt er að því að byggingin og leiksvæðið verði fullbúið í lok árs árs 2023.

Opinn kynningarfundur um verkefnið verður haldinn 28. apríl kl. 17 í Borgartúni 14. Á fundinum verður sagt frá fyrirhugaðri starfsemi, hönnun byggingar og lóðar, vottun framkvæmda og áætluðu framkvæmdatímabili.

Um er að ræða miðborgarleikskóla fyrir börn á aldrinum eins árs til sex ára en núverandi starfsemi skólans er við Njálsgötu, Lindargötu og Barónsstíg.

Miðstöð barna verður einnig í byggingunni. Meginmarkmið miðstöðvarinnar er að skapa góða aðstöðu fyrir foreldra ungra barna til þess að læra af hvert af öðru og fagfólki um ýmislegt sem tengist þroska barna þeirra eins og umönnun, tilfinningatengsl, uppeldi, hreyfingu og málþroska um leið og boðið er upp á sértæk úrræði og snemmtæka íhlutun fyrir fjölskyldur í viðkvæmri stöðu.

Farið verður í algera endurnýjun á svæðinu og leiksvæði útbúið fyrir börnin sem einnig er ætlað almenningi þegar leikskólastarfið er ekki í gangi.

Hægt er að kynna sér verkefnið á þessari síðu Miðborgarleikskóli og fjölskyldumiðstöð og skoða myndir.

Heimild: Reykjavík.is