Home Fréttir Í fréttum Segir áform um þjóðarhöll verða að skýrast í vor

Segir áform um þjóðarhöll verða að skýrast í vor

43
0
Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Borgarstjóri segir að ákvörðun um byggingu þjóðarhallar verði að liggja fyrir um mánaðamótin. Að öðrum kosti kemur borgin til með að nýta þá tvo milljarða króna sem hún hefur tekið frá, til að byggja íþróttahús fyrir íþróttafélögin í Laugardal, Þrótt og Ármann.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, vandaði stjórnvöldum ekki kveðjurnar eftir að Íslendingar tryggðu sér sæti á HM í handbolta á næsta ári með öruggum sigri á Austurríki í gær. Leikurinn fór fram á Ásvöllum því Laugardalshöllin stenst ekki alþjóðlegar kröfur.

„Eins og Guðmundur að þá höfum við verið að kalla eftir skýrri niðurstöðu varðandi þjóðarhallarmálin.

Reykjavíkurborg er með frátekna peninga fyrir íþróttahús í Laugardal og við höfum sagt að áform um þjóðarhöll verði að skýrast á þessu vori annars sjáum við ekki annan kost en að byggja sérstakt hús fyrir félögin í Dalnum, Þrótt og Ármann því krakkar þar eru í brýnni þörf fyrir aukna æfingaaðstöðu,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann segir að Þjóðarhöllin gæti mætt þeirri þörf. Viðræðuhópar frá þremur ráðuneytum hafa átt fundi með Reykjavíkurborg.

Hvenær er að vænta niðurstöðu í málinu? „Við gerðum athugasemdir við það að það voru ekki skýr fyrirmæli um þetta í nýrri fjármálaáætlun ríkisins og höfum sagt að það verði að skýra þessi mál á þessu vori. Við höfum sagt að í raun um næstu mánaðamót þurfi þessi niðurstaða að liggja fyrir,“ svarar Dagur.

Skilurðu gagnrýni Guðmundar? „Algjörlega. Það hafa verið höfð uppi góð orð um þjóðarleikvanga í mjög mörg ár núna og allt gott um það að segja. En það þurfa að vera staðfest fjármögnuð áform, það er það sem skiptir máli til að eyða óvissunni og getum farið að láta verkin tala.“

Heimild: Ruv.is

Previous articleEndurbætur á Tryggvagötu
Next article29.04.2022 Rangárþing eystra. „Hallgerðartún 2. áfangi gatnagerð“